Segir alið á tortryggni í garð lögreglunnar

Vilhjálmur Árnason segir að lögreglan þurfi að vera með búnað …
Vilhjálmur Árnason segir að lögreglan þurfi að vera með búnað til að takast á við áskoranir í þjóðfélaginu. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Sjáskot/RÚV

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að málflutningur þingmanns Pírata sé til þess að fallinn að ala á tortryggni í garð lögreglunnar.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði í samtali við mbl.is að leiðtogafundur Evrópuráðsins virðist hafa hafa verið notaður sem af­sök­un til að vopna­væða lög­regl­una. Ríkislögreglustjóri keypti vopn og skot­færi fyr­ir 185 millj­ón­ir króna.

„Mér finnst lögreglan oft verið notuð sem auðvelt skotmark í því að vekja upp tortryggni og annað slíkt. Lögreglan er eitthvað sem allir pæla og sér um að tryggja öryggi okkar. Mér finnst þetta auðveld leið til að sá efasemdum og skapa umræðu,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við málflutningi píratans.

Sumum upplýsingum ekki hægt að deila

Ekki var gefið upp hversu mörg skotvopn voru keypt og úrsk­urðar­nefnd upp­lýs­inga­mála úrsk­urðaði að rík­is­lög­reglu­stjóri þyrfti ekki að birta ná­kvæm­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda skotvopna eða skot­færa sem keypt voru. Eru helstu upp­gefnu ástæðurn­ar fyr­ir því bæði öryggi rík­is­ins og varn­ar­mál.

Finnst þér almenningur ekki eiga rétt á því að vita nákvæmlega hversu mörg skotvopn voru keypt?

„Ég er alltaf sammála því að almenningur á að fá sem mestar upplýsingar og gagnsæi í öllum opinberum rekstri – hvort sem á við um lögregluna eða annar staðar – þarf að vera sem mest,” segir Vilhjálmur.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er ríkislögreglustjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir samt sem áður að hvað lögregluna varðar þá séu vissar upplýsingar sem sé ekki hægt að deila opinberlega. Það verði að vera hægt að treysta lögreglunni til að meta það

Vilhjálmur segir að lögreglan meti það sem svo að upplýsingarnar sem ekki voru gefnar varði þjóðaröryggi og öryggi almennings. Það hljóti að vega þyngra en upplýsingar um nákvæma tölu á þeim skotvopnum sem voru keypt.

„Þetta snýst um þjóðaröryggi og öryggi almennings. Lögreglan er að meta þetta en hefur þó gefið töluverðar upplýsingar svo hægt sé að halda eftirliti og aðhaldi,“ segir hann.

Eðlilegt að fólk spyrji spurninga

Inn­kaup rík­is­lög­reglu­stjóra fóru ekki í gegn­um útboð á veg­um Rík­is­kaupa. Þess í stað tók RLS þá ákvörðun að fara í svo­nefnd bein samn­ings­kaup, þ.e. inn­kaupa­ferli án útboðs.

Vilhjálmur nefnir að við kaup á slíkum búnaði sé haft í huga öryggistilfinningu lögreglumanna og borgara. Bendir hann á að ríkislögreglustjóri hafi borið fyrir sig að naumur tími hafi verið til stefnu og búnaðurinn hefði ekki skilað sér fyrir fundinn ef farið hefði verið í útboð.

„Svo getur verið að einn búnaður lögreglu sé ódýrari en annar, en að nota ódýrari búnaðinn getur verið dýrara af því að lögreglan er fyrir með sambærilegan búnað. En með því að taka ódýrari búnað geturðu þurft að þjálfa, kaupa nýja aukahluti, nýja varahluti og allt annað. Þannig verðið eitt segir allt um þetta,“ segir hann.

Hann segir eðlilegt að það vakni upp spurningar þegar að það komi að lögreglustörfum en að það sé undir lögreglunni komið og þeirra sem þekkja til starfa hennar að svara spurningum og útskýra.

„Hef enga ástæðu til að ætla neins annars“

Björn Leví sagði að það þjónaði engum tilgangi hjá lögreglunni að vera með vopnin áfram eftir fundinn.

„Þetta virt­ist frek­ar vera af­sök­un til þess að vopna­væða lög­regl­una. Að nota þenn­an fund til þess að stækka vopna­búrið. Ef þetta hefði verið bara fyr­ir fund­inn þá hefðu þau bara fengið það sem þau þurftu fyr­ir hann og svo skilað því, eða þvíum­líkt,“ sagði Björn í samtali við mbl.is.

Vilhjálmur segir aðspurður enga ástæðu til þess að treysta ekki lögreglunni fyrir vopnunum.

„Ég hef enga ástæðu til að ætla það að íslenska lögreglan sé að ógna öryggi almennings með því að eiga of mikið af vopnum eða sé að taka einhverja ákvörðun sem snýr ekki að öryggishagsmunum almennings. Lögreglan er ekki að sinna neinu öðru og ég hef enga ástæðu til að ætla neins annars,“ segir hann.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var sjálfur í lögreglunni áður fyrr.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var sjálfur í lögreglunni áður fyrr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þurfti að bæta búnaðinn óháð fundinum

Sjálfstæðismaðurinn segir að óháð fundinum hafi lögreglan samt sem áður þurft að bæta búnaðinn sinn til þess að mæta núverandi aðstæðum í þjóðfélaginu.

„Bara til þess að lögreglan sé tilbúin til að takast á við þær áskoranir hér koma upp. Að það koma upp vopnamál hringinn í kringum landið, hér býr fleira fólk, hér eru stærri glæpasamtök að starfa og það er hærra viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar. Við sem land, áður en þessi leiðtogafundur fór fram, vorum ekki tilbúin í það,“ segir Vilhjálmur og bætir við: 

„Það voru uppi áætlanir um að endurnýja skotvopn og takast á við þetta en tíma og fjármunum lögreglu hafði verið forgangsraðað annað sem sýnir okkur það að lögreglan er ekki að setja það í forgang að setja peningana í skotvopn og þjálfun á þeim. En það var gert samhliða fundinum og hefði þurft að gera það hvort sem fundurinn fór fram eða ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert