Sleginn í rot fyrir framan skemmtistað

Verkefni lögreglu er ýmisleg.
Verkefni lögreglu er ýmisleg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um líkamsárás fyrir framan skemmtistað í miðborginni. Árásarþoli var sleginn í rot og sparkað í höfuð hans. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa. Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Þetta kem­ur fram í dag­bók lög­reglu. Dag­bók­in nær til verk­efna lög­reglu frá klukk­an 17 í gær til klukkan 05 í morg­un. 

Reyndi að komast undan lögreglu

Þá var ökumaður stöðvaður af lögreglu við umferðareftirlit. Þegar hann stöðvaði bifreiðina þá tók hann á rás og reyndi að komast undan á tveimur jafnfljótum.

„Hann hafði ekki erindi sem erfiði því lögreglumennirnir voru töluvert hraðari og náðu honum fljótt. Hann var grunaður um ölvunarakstur og handtekinn. Þegar komið var á lögreglustöðina þá gerði ökumaðurinn sig aftur líklegan til að komast undan, þá í handjárnum. Honum var þó haldið kyrfilega og hann lét strax undan,“ segir í dagbók lögreglu.

Einnig var lögreglu tilkynnt um umferðaróhapp þar sem afturdekk losnaði undan bifreið og kastaðist á hjólhýsi. Engin urðu slys á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert