Skjálfti upp á 2,5 mældist norðaustur af Hagafelli um hádegi í dag og er hann sá stærsti sem sést hefur á svæðinu við Sundhnúkagíga síðan seinasta eldgos hófst í maí.
Síðustu vikur hafa um 60-90 skjálftar mælst á sólarhring en í dag eru þeir þegar orðnir 100-120 talsins.
Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir við mbl.is að skjálftum sé klárlega að fjölga – og þeir virðist stækka.
Vísindamenn hafa talið eldgos yfirvofandi undanfarnar vikur og þar sem hægst hefur á landrisi í Svartsengi virðist Sundahnúkagígaröðin vera búin að koma sér í stellingar fyrir næsta kvikuhlaup. Talið er að um 20 milljónir rúmmetra af kviku hafi safnast í kvikuhólfinu.
Samt bólar enn ekkert á umbrotum. Forboði eldgoss yrði kröftug skjálftahrina samfara þrýstingsbreytingum í borholum HS Orku og stórauknum gosóróa. Fyrirvarinn gæti þó verið styttri en hálftími.
Mælar Veðurstofunnar sýna samt að 121 skjálfti hafi mælst í eða nálægt Grindavík frá miðnætti, að sögn náttúruvársérfræðingsins.
Aftur á móti er afar gott veður á svæðinu, þannig að allrasmæstu skjálftarnir sjást einnig á mælum – þ.e. þeir sem mælast um -0,2 að stærð, en mælikvarðinn virkar þannig að skjálftar geti mælst undir núlli. „Það þýðir bara að þetta séu mjög litlir skjálftar,“ segir Jóhanna.
Að þessum smæstu skjálftum frátöldum eru skjálftarnir í kvikuganginum þegar orðnir rúmlega 100 talsins í dag, „sem er aðeins meira en í meðallagi undanfarið,“ segir Jóhanna Malen.
Um kl. 12.03 í dag reið 2,5 stiga skjálfti yfir um 600 metrum norðaustur af Hagafelli og er hann sá stærsti sem hefur sést á svæðinu frá því að síðasta eldgos hófst í lok maí.
En þá voru skjálftarnir reyndar fleiri.
Það er reyndar óljóst hvort hann hafi í raun og veru mælst í kvikuganginum. „Hann er aðeins til hliðar við kvikuganginn,“ segir Jóhanna.
Þannig að 2,5-skjálftinn einn og sér er ekki merki um að gos sé í þann mund að hefjast en náttúruvársérfræðingurinn telur samt eitt ljóst: skjálftarnir eru að stækka auk þess sem þeim fjölgar.
Þá hafa fleiri skjálftar mælst yfir 2 að stærð, þar á meðal einn sem mældist við Sýlingarfell í gær.
„Það er áfram þessi aukni þrýstingur, þessi aukna spenna, í skorpunni á þessu svæði út af því að kvikuhólfið er enn að bæta í sig kviku [...]. Og við þennan aukna þrýsting verða skjálftar sem verða svo stærri,“ segir Jóhanna.
„Það er vissulega þróunin undanfarna tvo daga að við erum að fá aðeins stærri skjálfta.“