„Það er auðvitað algjörlega óþolandi“

Jón Gunnarsson segir ákveðið ábyrgðarleysi að ganga til kosninga án …
Jón Gunnarsson segir ákveðið ábyrgðarleysi að ganga til kosninga án þess að klára grundvallarmál. mbl.is/Óttar

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ályktun flokksráðsfundar Vinstri grænna (VG) sýni „í hvað stefni“. Þingið þurfi þó að taka á grundvallarmálum eins og efnahags-, orku- og útlendingamálum áður en gengið er til kosninga.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður VG, sagði í gær að frek­ari breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­gjöf­inni væri ekki for­gangs­mál í hans aug­um.

Flokksráð VG for­dæmdi svo ákvörðun Bjarna Bene­dikts­son­ar, for­sæt­is­ráðherra og fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra, um að frysta tíma­bundið greiðslur til Palestínuflótta­mannaaðstoðar Sam­einuðu þjóðanna (UNRWA).

Hefur áhyggjur af stöðu orkumála

Spurður út í ummæli Guðmundar og ályktun fundarins segir Jón:

„Það er náttúrulega ákaflega óheppilegt. Kannski sýnir þetta svolítið í hvað stefnir ef það er komin upp óeining uppi um það sem var nú teiknað upp sem forgangsmál þessarar ríkisstjórnar,“ segir Jón og vísar í útlendingamálin.

Þá hefur hann miklar áhyggjur af stöðunni í orkumálum og þá sérstaklega ef að menn ætla að fara að tefja fyrir framgöngu vindorkufrumvarps.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna. Ljósmynd/Aðsend

Ákveðið ábyrgðarleysi að fara í kosningar

Spurður hvort að hann telji að gengið verði til kosninga næsta vor frekar en haustið 2025 segir hann mikilvægt að taka á grundvallarmálum áður en kemur að kosningum. Aðgerðarleysi kosti samfélagið tugi milljarða á ári.

„Nú kveður orðið við gamlan tón hjá vinstrimönnum í því samhengi og það er auðvitað algjörlega óþolandi. Ég tel að með tilliti til ástandsins í efnahagsmálum og öðrum mikilvægum málum væri mjög mikilvægt að þetta þing næði að klára grundvallarmál til þess að byggja inn í framtíðina.

Ég held að það væri ákveðið ábyrgðarleysi að fara í kosningar en það verður þá að leita einhverja lausna í því að ná víðtækri samstöðu í þinginu um þessi grundvallarmál þannig að við getum komist áfram í þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert