Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ályktun flokksráðsfundar Vinstri grænna (VG) sýni „í hvað stefni“. Þingið þurfi þó að taka á grundvallarmálum eins og efnahags-, orku- og útlendingamálum áður en gengið er til kosninga.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður VG, sagði í gær að frekari breytingar á útlendingalöggjöfinni væri ekki forgangsmál í hans augum.
Flokksráð VG fordæmdi svo ákvörðun Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, um að frysta tímabundið greiðslur til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).
Spurður út í ummæli Guðmundar og ályktun fundarins segir Jón:
„Það er náttúrulega ákaflega óheppilegt. Kannski sýnir þetta svolítið í hvað stefnir ef það er komin upp óeining uppi um það sem var nú teiknað upp sem forgangsmál þessarar ríkisstjórnar,“ segir Jón og vísar í útlendingamálin.
Þá hefur hann miklar áhyggjur af stöðunni í orkumálum og þá sérstaklega ef að menn ætla að fara að tefja fyrir framgöngu vindorkufrumvarps.
Spurður hvort að hann telji að gengið verði til kosninga næsta vor frekar en haustið 2025 segir hann mikilvægt að taka á grundvallarmálum áður en kemur að kosningum. Aðgerðarleysi kosti samfélagið tugi milljarða á ári.
„Nú kveður orðið við gamlan tón hjá vinstrimönnum í því samhengi og það er auðvitað algjörlega óþolandi. Ég tel að með tilliti til ástandsins í efnahagsmálum og öðrum mikilvægum málum væri mjög mikilvægt að þetta þing næði að klára grundvallarmál til þess að byggja inn í framtíðina.
Ég held að það væri ákveðið ábyrgðarleysi að fara í kosningar en það verður þá að leita einhverja lausna í því að ná víðtækri samstöðu í þinginu um þessi grundvallarmál þannig að við getum komist áfram í þeim.“