28 milljóna kr. stuðningur

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið leggur til 18 milljónir króna í styrkinn …
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið leggur til 18 milljónir króna í styrkinn og dómsmálaráðuneytið 10 milljónir. mbl.is/Árni Sæberg

Dómsmálaráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafa styrkt samtökin Bjarkahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, um 28 milljónir króna. Styrkurinn er ætlaður verkefnum tengdum mansali.

Styrkurinn er tilkominn vegna aukinna verkefna Bjarkahlíða og aukinnar áherslu stjórnvalda á aðgerðir gegn mansali. 

Samningur um aukinn stuðning við Bjarkarhlíð vegna mannsalsverkefna var undirritaður fyrr í dag í Bjarkarhlíð. 

Ráðuneytin leggja í púkk

Í tilkynningu segir að með samkomulagi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið var samtökunum falin umsjón með framkvæmdateymi um mansalsmál. 

Með styrknum getur Bjarkarhlíð ráðið starfsmann í fullt stöðugildi í tvö ár til þess að sinna verkefnum tengdum mannsali. 

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið leggur til 18 milljónir króna í styrkinn og dómsmálaráðuneytið 10 milljónir. 

Samkvæmt samkomulaginu verðu lögð áhersla á mótun og samhæfingu almenns verklags þegar kemur að þjónustu við þolendur mansals. 

Áhersla verður lögð á aukna kynningu á hlutverki Bjarkarhlíðar þegar kemur að mansalsmálum og unnið að því að auka þekkingu á helstu birtingarmyndum og eðli mansals.

Leitað verður leiða til þess að ná betur til þolenda vændismansals. 

„Mikilvægt að sofna ekki á verðinum“

„Brýnt er að taka á mansalsmálum með samræmdum hætti og af festu. Styrkurinn til Bjarkarhlíðar skiptir hér miklu máli. Nýleg dæmi sýna hve mikilvægt er að grípa þolendur um leið og mál koma upp og veita þeim viðeigandi þjónustu. Þau sýna líka hversu dýrmæt reynsla hefur byggst upp í Bjarkarhlíð í mansalsmálum síðastliðin ár,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í tilkynningu. 

„Bjarkarhlíð hefur sinnt mikilvægu hlutverki við meðferð mansalsmála undanfarin ár. Dómsmálaráðuneytið hefur með þessu samkomulagi í dag lagt lóð á vogarskálarnar til að Bjarkarhlíð geti áfram sinnt þessu mikilvæga hlutverki og mætt auknum málafjölda. Hrundið hefur verið af stað vinnu við nýja aðgerðaáætlun til að mæta okkar alþjóðlegu skuldbindingum. Þá hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar aukið samstarf ráðuneyta í málaflokknum. Gott samstarf og samvinnu þarf til í baráttunni gegn mansali. Það er viðvarandi verkefni hverrar þjóðar að berjast gegn mansali og mikilvægt að sofna ekki á verðinum,“ er haft eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert