Aðalmeðferð ákveðin í Nýbýlavegsmáli

Konan hefur játað að hafa orðið syni sínum að bana …
Konan hefur játað að hafa orðið syni sínum að bana á Nýbýlavegi í lok janúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðalmeðferð í máli gegn fimmtugri móður, sem sökuð er um að hafa orðið sex ára syni sínum að bana og gert tilraun til þess að deyða eldri son sinn sömuleiðis,  fer fram eftir rúmlega þrjár vikur, eða fimmtudaginn 12. september.

Þetta var ákveðið í fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Þinghald í málinu er lokað, en Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, staðfestir þetta við mbl.is.

Metin sakhæf

Áður höfðu matsmenn metið konuna sakhæfa. Þá hafði Karl Ingi áður sagt að konan hafi játað sakir, en að hún telji sig hafa verið í þannig ástandi að verkið hafi verið refsilaust.

Málið kom upp í lok janú­ar á þessu ári. Lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu berst út­kall um klukk­an 07:30 þann 31. janú­ar. Ljóst er að móðirin hafði sjálf sam­band við lög­reglu en sex ára son­ur henn­ar var lát­inn þegar lög­reglu bar að garði. Þá var eldri son­ur kon­unn­ar far­inn í skól­ann. 

Kon­an er af er­lendu bergi brot­in og bjó á Ný­býla­vegi ásamt son­um sín­um tveim­ur. Faðir drengj­anna bjó ann­ars staðar á Íslandi. Nýt­ur fjöl­skyld­an alþjóðlegr­ar vernd­ar og hef­ur verið bú­sett hér­lend­is í um 4 ár. 

Dreng­ur­inn sem lést var nem­andi í fyrsta bekk við Álf­hóls­skóla og var áfallat­eymi skól­ans virkjað í kjöl­far and­láts­ins. 

Ákæra var gef­in út á hend­ur kon­unni í lok apríl og var málið þing­fest þann 3. maí í Héraðsdómi Reykja­ness. 

Kon­an er ann­ars veg­ar ákærð fyr­ir mann­dráp og stór­fellt brot í nánu sam­bandi og hins veg­ar til­raun til mann­dráps og stór­fellt brot í nánu sam­bandi. 

Réðst einnig gegn eldri syninum

Í ákær­unni kem­ur fram að kon­an hafi svipt son sinn lífi með að setja kodda yfir and­lit hans og með báðum hönd­um þrýst kodd­an­um yfir vit hans, þrýst á háls hans og efri hluta brjóst­kassa hans og ekki linað þau tök fyrr en dreng­ur­inn var lát­inn. Lést hann af völd­um köfn­un­ar að því er fram kem­ur í ákær­unni.

Þá er hún sögð hafa farið inn í svefn­her­bergi eldri drengs­ins þar sem hann lá sof­andi á mag­an­um, tekið fyr­ir vit hans með ann­arri hendi og í hnakka hans með hinni. Þrýsti hún and­liti hans niður í rúmið þannig að hann gat ekki andað. Vaknaði dreng­ur­inn við þessa at­lögu og gat losað sig úr taki móður­inn­ar.

Fyr­ir hönd eldri drengs­ins er farið fram á að móðirin greiði hon­um 10 millj­ón­ir í bæt­ur, en auk þess fer faðir drengj­anna fram á 8 millj­ón­ir í bæt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert