Vestfirska fiskeldisfyrirtækið Hábrún/ÍS-47 er með áform um að hefja að nýju eldi regnbogasilungs í fiskeldisstöðinni Laxalóni í Reykjavík.
Umhverfisstofnun felldi í byrjun ársins úr gildi starfsleyfi félagsins Silungs-eldisstöðvar ehf. sem var þar síðast með starfsemi en félagið var úrskurðað gjaldþrota í lok ársins 2021. Rekstarleyfi, sem Matvælastofnun gefur út, rann út á síðasta ári.
Silungur-eldisstöð var með starfsleyfi frá Umhverfisstofnun til eldis að hámarki 15 tonna ársframleiðslu á regnbogasilungi til ársins 2036 en leyfið var fellt niður í byrjun þessa árs eins og áður sagði. Aðaleigandi Silungs-eldisstöðvar hélt rekstrinum eitthvað áfram eftir gjaldþrotið og þangað voru flutt hrogn í einangrun á vegum Hábrúnar/ÍS-47 fram á árið 2022 en fiskurinn var síðan alinn til slátrunar í sjókvíum í Skutuls- og Önundarfirði. Frá síðasta ári voru hrogn, sem flutt voru inn á vegum Hábrúnar/ÍS-47, lögð inn í klakaðstöðu í Ásmundarnesi á Ströndum.
Gísli Jón Kristjánsson, einn hluthafa í Hábrún/ÍS-47, sagði við Morgunblaðið, að samið hafi verið um kaup á rekstrinum í Laxalóni og verið sé að vinna að því að fá endurnýjuð starfsleyfi og rekstarleyfi fyrir stöðina. Hugmyndin væri að starfrækja stöðina áfram ef leyfi fáist.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag