Það er áframhaldandi aukning í skjálftavirkni á svæðinu við Sundhnúkagígaröðina. Síðasta sólarhring hafa mælst 124 skjálftar og þar af tæplega 40 frá miðnætti.
Þetta segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Hún segir að skjálftarnir hafi flestir verið undir einum að stærð.
Minney segir að það hafi hægt á landrisi síðustu dagana en líkanreikningar sýna að rúmmál kviku undir Svartsengi er núna áætlað meira en fyrir síðasta eldgos sem hófst þann 29. maí.