Dómarinn vildi ekki byrja leikinn aftur!

Sextíu árum síðar. Sigurður Helgason fékk Henson til að gera …
Sextíu árum síðar. Sigurður Helgason fékk Henson til að gera treyjur með dagsetningu, merkjum félaganna og nöfnum leikmanna og þjálfara liðanna á þessum tímamótum og gaf þær meðal annars KR-ingum, sem spiluðu á móti Liverpool, í morgunkaffi í KR-heimilinu á laugardag. Frá vinstri eru Gunnar Felixson, Sveinn Jónsson og Þórður Jónsson með leikskrána. mbl.is/Hákon

Fyrir 60 árum lék KR fyrst íslenskra liða í Evrópukeppni í fótbolta og mætti Liverpool, sem einnig þreytti frumraun sína á þessum vettvangi, í fyrri leik liðanna í EM meistaraliða á Laugardalsvelli mánudaginn 17. ágúst 1964.

Gordon Wallace gerði fyrsta mark Liverpool á 3. mínútu í 5:0 sigri að viðstöddum ríflega 10 þúsund áhorfendum og Gunnar Felixson varð fyrstur Íslendinga til að skora í Evrópukeppni, gerði það í seinni leiknum sem tapaðist 6:1 á Anfield 14. september.

„Þetta var mikið ævintýri og nýmæli,“ segir Sveinn Jónsson. Liðin mættust síðan í æfingaleik á Laugardalsvelli 20 árum síðar og gerðu þá jafntefli, 2:2.

Sveinn segir að undirbúningur fyrir fyrri Evrópuleikinn hafi verið hefðbundinn.

„Að loknum vinnudegi náðu menn í dótið og komu sér á völlinn. Við gerðum okkur engar vonir á mótu þessu sterka liði atvinnumanna enda kunnu Íslendingar ekkert í varnarleik á þessum tíma. Uppleggið var alltaf að sækja og gera fleiri mörk en andstæðingarnir. Við töpuðum báðum leikjunum með miklum mun og enginn var óánægður með það. Ég hljóp reyndar til dómarans eftir að þeir skoruðu fyrsta markið og spurði hvort við gætum ekki byrjað aftur því við hefðum ekki verið tilbúnir en hann hristi bara höfuðið.“

Konurnar frægari en leikmennirnir

Leikmenn KR gáfu út leikskrá og notuðu hagnaðinn af sölu auglýsinga til að bjóða eiginkonunum með í ferðina til Englands.

„Þetta vakti athygli og mynd af konunum birtist á forsíðu dagblaða í Liverpool en mynd af okkur á íþróttasíðum, rifjar Sveinn upp. „Þegar við fórum með þeim í búðir daginn eftir leik leit enginn á okkur en konurnar voru óspart spurðar hvort þær væru eiginkonur íslensku leikmannanna. Þær voru þekktari og frægari heldur en við.“

Nánar er fjallað um leiki liðanna og ferð KR til Liverpool í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert