Foreldrafélög í skólum í grennd við Grímsbæ við Bústaðaveg í Fossvogi lýsa vonbrigðum yfir áætlaðri komu nikótínpúðaverslunarinnar Svens í verslunarkjarnann.
Foreldrafélögin segja það borðleggjandi að markaðssetning Svens beinist í miklum mæli að ungu fólki og að verslunin hafi orðið uppvís að því að brjóta ákvæði laga um markaðssetningu á nikótínvörum.
Stjórnir foreldrafélaga Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla og Réttarholtsskóla lýsa vonbrigðum yfir komu Svens í bréfi til fasteignafélagsins Reitir sem leigir út verslunarrými í Grímsbæ til Svens.
Félögin benda á að þrír grunnskólar með samanlagt 1.200 nemendur eru staðsettir í um 500 metra radíus frá verslunarkjarnanum.
Þau telja þannig að með komu Svens sé veruleg hætta á að ungmenni eða börn verði sér út um nikótínvörur í búðinni sem verður staðsett við hlið einu matvöruverslunarinnar og ísbúðarinnar í hverfinu.
Foreldrafélögin hvetja Reiti til þess að endurskoða leigusamning sinn við Svens og hvetja Reiti til þess að huga að leigutaka sem eflir og styrkir nærsamfélagið.
Það var fjölmiðlakonan Eyrún Magnúsdóttir sem vakti athygli á komu Svens í síðustu viku. Sagði hún að það stefndi í að Bústaðavegur yrði að nikótínstræti og gagnrýndi hún yfirvöld fyrir að sofa á verðinum varðandi nikótínvörur. Þá beindi hún jafnframt gagnrýni sinni að Reitum, sem og lífeyrissjóðum sem eru meirihlutaeigendur félagsins, fyrir að sýna ekki samfélagslega ábyrgð.