Suðurnesjabær og Vogar ætla að bjóða íbúum Hafnarfjarðar, Kópavogs, Álftaness, Garðabæjar, Norðlingaholts, Breiðholts, Hólmsheiðar og Almannadals frítt í sund. Áður hefur komið fram að Reykjanesbær ætlar einnig að bjóða þessum íbúum frítt í sund.
Heitavatnslaust verður á þessum stöðum frá klukkan 22 í kvöld, á morgun og fram til hádegis á miðvikudag.
Í tilkynningu á vef Suðurnesjabæjar segir: „Síðasta vetur var heitavatnslaus á Suðurnesjum um nokkurra daga skeið þar sem hraun fór yfir heitavatnslög frá Svartsengi. Á þeim tíma buðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og víðar íbúum Suðurnesja frítt aðgengi í sundlaugar sem íbúar kunnu vel að meta.“
Tvær sundlaugar eru í Suðurnesjabæ, önnur í Sandgerði og hin í Garði. Vatnaveröld er í Keflavík.
Á vef Voga segir: „Þakklæti er okkur enn ofarlega í huga fyrir vinarþelið sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sýndu í verki þegar heitavatnslaust var í vetur á Suðurnesjum.“
Sundlaugin er staðsett í íþróttamiðstöð sveitarfélagsins að Hafnargötu 17.
Réttilega er þar bent á að það taki ekki nema 20 mínútur að skjótast á bíl frá Hafnarfirði til Voga.
Sundlaugar í Hafnarfirði, Kópavogi, Álftanesi og Garðabæ verða lokaðar á morgun og á miðvikudag. Þá verður einnig lokað í Breiðholtslaug, Árbæjarlaug og Vesturbæjarlaug.