Það var víða kalt á landinu í nótt og til að mynda mældist 2,3 stiga frost á Þingvöllum. Á Básum í Goðalandi mældist 1,3 stiga frost og 1,2 á Lyngdalsheiði.
Það verður norðaustan kaldi eða stinningskaldi í dag með vætu norðan- og austanlands en bjart sunnan og vestan til.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Síðdegis kemur úrkomusvæði að suðausturströndinni sem fer norður yfir austanvert landið í kvöld og nótt. Hitinn verður 4 til 13 stig og verður mildast syðst.
Á morgun verða 5-13 m/s, hvassast við austurströndina. Skýjað verður norðan og austan til og verður smá væta og hiti 4 til 9 stig. Það verður bjart með köflum sunnan- og vestanlands og þar verður hitinn 9 til 14 stig.