Heitavatnsleysið: Þetta þarf að passa

Suðuræð er ein aðalflutningsleiðin á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.
Suðuræð er ein aðalflutningsleiðin á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Veitur

Undirbúningur fyrir fyrirhugaða lokun Veitna á flæði heitavatnsins um Hafnar­f­jörð, Kópa­vog, Álfta­nes, Garðabæ, Norðlinga­holt og Breiðholt gengur vel og er verkið á áætlun. Samskiptastjóri Veitna segir mikilvægast að fólk skrúfi fyrir krana áður en að lokað er fyrir vatnið. 

„Mikilvægt er að íbúar hafi skrúfað fyrir krana til að koma í veg fyrir slys og tjón þegar vatnið kemur á aftur,“ segir Rún Ingvarsdóttir. 

„Gott er að hafa gluggana lokaða á þessum tíma til að halda varmanum inni.“

Ástæða heita­vatns­leys­is­ins er sú að vinna stend­ur yfir að tvö­falda á suðuræð sem flyt­ur vatn frá Reyn­is­vatns­heiði og á stór­an hluta af höfuðborg­ar­svæðinu. Í lok ág­úst verður hluti henn­ar tek­in í notk­un. 

Ráð frá Félagi pípulagningameistara

Á heimasíðu Veitna má sjá frekari upplýsingar um lokunina og ráð frá Félagi pípulagningameistara. Í upplýsingaskjali frá félaginu, sem má sjá með því að smella hér, er meðal annars farið yfir eftirfarandi skref:

Fylgja leiðbeiningunum í réttri númeraröð til að koma í veg fyrir tjón og truflanir:

1. Fylgjast með tilkynningum veitufyrirtækja um fyrirhugaða lokun á heitu vatni.

2. Loka fyrir stofnloka/inntaksloka á heitu vatni rétt fyrir fyrirhugaða lokun á heitu vatni.

3. Loka fyrir loka á bakrás (retúr) til að halda vatni inni á hitakerfinu.

4. Slökkva á hringrásardælum, ef við á.

Eftir að viðgerð er lokið og vatn komið aftur á dreifikerfið:

5. Þegar vatni er hleypt aftur á dreifikerfið er MIKILVÆGT að opna fyrst fyrir loka á bakrás og síðan fyrir stofnloka/inntaksloka.

6. Skrúfa frá heitu neysluvatni (t.d. eldhús- eða skolvask) og láta vatn renna í 30 sekúndur eða þar til loft er farið úr lögnum. (Þar sem er varmaskiptir bíða eftir nægu hitastigi úr krana.)

7. Kveikja á hringrásardælum, ef við á.

8. Ef hitakerfið virkar ekki, athuga hvort óhreinindi séu í inntakssíu eða þrýstijafnari hættur að virka.

9. Ef ekki er hægt að koma hitakerfinu í gang er hægt að finna pípara á piparinn.is

10. Fylgjast vel með hitakerfinu eftir að það er komið í gang. Athuga með leka og hvort kerfið virkar rétt.

Áætlað er að heitavatnslaust verði á svæðinu frá því klukkan 22.00 í kvöld til hádegis miðvikudaginn 21. ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert