Baðlónið Sky Lagoon á Kársnesi í Kópavogi hefur verið stækkað og því breytt. Þjónusta, sem hingað til hefur verið nefnd sjö skrefa Ritúal fær nýtt nafn, Skjól, og verður innifalin í aðgangi allra gesta.
Þá fá skrefin, sem hingað til hafa borið ensk heiti, nú íslensk nöfn. Breytingarnar verða afhjúpaðar á fimmtudaginn.
„Þegar að við opnuðum lónið sáum við viðbrögð gesta við þessu sjö skrefa ritúali sem við höfum boðið upp á og það er búið að vera virkilega ánægjulegt að sjá hvað fólk hefur notið þess að koma. Við vildum dýpka þessa upplifun og sjá til þess að allir geti notið þess að fara í ritúalið og halda áfram þessari vegferð að upphefja íslenska baðmenningu, sögu og arfleið okkar, með því að bjóða upp á þessa upplifun fyrir alla gestina,“ segir Helga María Albertsdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon, í samtali við Morgunblaðið.
Breytingarnar fela meðal annars í sér stækkun á sánunni YL, en nú verða þar í boði tvenns konar svæði, annað þeirra með enn stærri útsýnisglugga en var áður og hitt verður sérstakt símalaust svæði kjósi gestir það til þess að ná enn betri slökun. Einnig munu breytingarnar fela í sér nýtt skref þar sem gestir munu ljúka ferðalaginu inni í torfbæ þar sem þeim verður boðið upp á kalt krækiberjasaft í bland við íslenskt jurtate.
„Þetta lokaskref er gert til þess að næra og við erum að nýta íslensk krækiber, með öllum þeim eiginleikum sem krækiber hafa. Þetta er náttúrulega hálfgerð ofurfæða þannig það verður mjög gaman að bæta þessu við. Þá erum við í rauninni búin að fara hringinn, við erum að nota hita og kulda og svo í lokin kemur inn þessi næring,“ segir Helga aðspurð út i hvaða nýjungar verði kynntar. Viðskiptavinir fá meðal annars að finna fyrir íslensku rigningunni í skrefi sem kallast súldin, en það er eitt af þeim svæðum sem hefur verið betrumbætt í þessum framkvæmdum.
„Við erum ótrúlega spennt að sjá hvernig fólki mun líða og hvernig viðbrögðin verða,” segir Helga.
„Skjólið kemur með því að hlusta, maður er búin að heyra að fólk finnur hér skjól. Fólk kemur hingað hvernig sem viðrar og vindar blása,“ segir Helga.
Helga segir að nafnabreytingin úr sjö-skrefa Ritúali yfir í Skjól sé liður í vegferð Sky Lagoon sem snýr að því að gefa íslenskunni aukið vægi. Það hafa þau meðal annars gert með því að gefa hverju skrefi íslenskt heiti í stað enska heitisins sem þau báru áður.
„Við höfum hlustað á það sem gestir hafa deilt með okkur og eitt af því er að þetta er íslensk baðmenning og það sé mikilvægt að gera íslenskunni hátt undir höfði. Það er mjög gaman og það er búið að vera skemmtilegt að fara í þessa vegferð, að finna pláss fyrir íslenskuna og þetta er það sem við munum halda áfram að gera, að vera með íslenskuna í forgrunni,“ segir Helga.
Mun þetta laða að fleiri ferðamenn?
„Markmiðið með þessu er ekki að auka fjölda,“ segir Helga og útskýrir að það verði jafn margir miðar seldir inn í lónið eins og var gert áður fyrr, nema núna sé búið að dýpka upplifunina og gera hana stærri en á sama verði.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag