Námsgögn í framhaldsskólum verði gjaldfrjáls

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barna- og menntamálaráðuneytið hefur lagt fram frumvarp, og ríkisstjórnin samþykkt að leggja fyrir á Alþingi, sem snýr meðal annars að því að tryggja gjaldfrjáls námsgögn í framhaldsskólum fyrir nemendur upp að 18 ára aldri. 

Þetta er byggt á niðurstöðum starfshóps barna- og menntamálaráðuneytisins um námsgögn. Þá er einnig lagt til að framlag til námsgagnagerðar sé tvöfaldað. 

Meðal tillagna starfshópsins er aukið fjármagn til námsgagnasjóðs og þróunarsjóðs námsgagna. Fjárframlag til þessara sjóða verður tvöfaldað frá árinu 2025 samkvæmt ákvörðun ráðherra. Nemendur munu njóta aukins framboðs námsefnis í ákveðnum greinum strax á vorönn 2025. Markmiðið er að búa til fleiri, fjölbreyttari og vandaðri námsgögn fyrir kennara og skóla til að velja úr,“ segir á vef Stjórnarráðsins. 

Tónlistarskólar með í fyrsta sinn

Lagt er til að námsgagna- og þróunarstuðningurinn hefjist við gildistöku laganna og gerist í áföngum þar til námsgögn í framhaldsskólum verði að fullu gjaldfrjáls þann 1. janúar 2029. Þá er námsefni fyrir tónlistarskóla einnig nefnt í sambandi við þróun frekari námsgagna. 

Í frumvarpinu er mælt fyrir um ný heildarlög um námsgögn sem koma í stað núgildandi laga um námsgögn. Lagðar eru til ýmsar breytingar á stuðningi ríkisins við nýsköpun, þróun, gerð, þýðingu og útgáfu námsgagna á fjölbreyttu formi fyrir leik-, grunn-, framhaldsskóla og nú í fyrsta sinn fyrir tónlistarskóla einnig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert