„Þetta er orðið hálf haustlegt hjá okkur,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en á nokkrum stöðum á landinu mældist frost síðastliðna nótt.
Á Þingvöllum mældist 2,3 stiga frost í nótt, í Básum í Goðalandi mældist 1,3 stiga frost og 1,2 á Lyngdalsheiði.
„Það var heiðskírt á Þingvöllum í nótt og það vill oft kólna hressilega þar í þannig aðstæðum. Það er ekki algengt að það mælist frost um miðjan ágúst en það er ekkert óvenjulegt,“ segir Haraldur.
Haraldur segir að það sé kalt loft ríkjandi yfir landinu og það muni verða áfram út vikuna. Hann segir að hitinn verði þokkalegur sunnanlands í sólinni á morgun en á miðvikudaginn fari lægð framhjá landinu sem komi með rigningu og þá aðallega á Suðausturlandi.
„Í kjölfarið verður áframhaldandi norðlæg átt og þá verður væta fyrst og fremst á norðurhelmingi landsins en bjartara sunnanlands og þá getur orðið næturkuldi sérstaklega ef það lægir og léttir til,“ segir Haraldur.
Hann segir að það hafi sjálfsagt snjóað eitthvað í fjöll á hálendinu í nótt og það sé alveg við því að búast að það snjói eitthvað áfram á fjöllum í vikunni.