Segir orlofsgreiðsluna hafa gerst sjálfkrafa

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri segir að við starfslok gerist það sjálfkrafa í launakerfi borgarinnar að áunnið orlof komi til greiðslu. Það sé framkvæmt eins fyrir allt starfsfólk borgarinnar og samkvæmt sömu reglum, þar með talið borgarstjóra.

Átti sér ekki stað samtal eða formleg ákvörðun um þessa greiðslu til þín áður en hún var greidd út? Ef slíkt samtal fór fram, var það við einhvern undirmann þinn eða þá við núverandi borgarstjóra?

„Nei, þetta er algerlega sjálfvirkt ferli sem á sér stað í tengslum við uppgjör orlofs við starfslok. Það tryggir að sömu reglur gilda fyrir alla starfsmenn.“

Vísar á mannauðsstjóra

Í svari borgarlögmanns vegna fyrirspurnar oddvita Sjálfstæðisflokksins var talað um að í síðustu kjarasamningum hafi verið skerpt á heimildum til frestunar og þá einnig fyrningar orlofs. Þar var heimild til frestunar á niðurfellingu orlofsdaga framlengd til 30. apríl 2024 hjá Reykjavíkurborg, ríki og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Frá og með 30. apríl 2024 verður því ekki lengur heimilt að flytja orlof á milli orlofsára nema í undantekningartilvikum. Ríkið gerði starfsmönnum sínum skylt að taka út orlofsdaga sína sl. vor og því ekki heimilt lengur að flytja orlof milli orlofsára nema í undatekningartilfellum.

Gerði Reykjavíkurborg ekki það sama og ef ekki, hvers vegna?

„Mannauðsstjóri ætti að geta svarað spurningum varðandi kjarasamninga og orlofsskuld.“

Kemur til greina að endurgreiða orlofsgreiðsluna?

„Nei, um hefðbundið orlofsuppgjör við starfslok er að ræða.“

Tíu ára uppgjör á orlofsgreiðslu uppá 9,7 milljónir getur varla talist hefðbundið orlofsuppgjör. Getur þú nefnt önnur dæmi?

„Ég hef ekki upplýsingar um uppgjör orlofs annarra stjórnenda og starfsmanna en veit að mannauðssviðið er að taka það saman fyrir Morgunblaðið,“ segir Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert