Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, segir að innleiðingu nýs samræmds námsmats, svokallaðs matsferils, verði flýtt um eitt ár hvað stærðfræði varðar.
Greint var frá því á mbl.is á föstudag að Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hefði ákveðið að flýta innleiðingu nýs námsmats og um leið gera það skyldubundið fyrir þrjá árganga grunnskóla.
Þetta mátti ráða af drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, sem ráðuneytið kynnti þann dag til umsagnar.
Ráðherrann hefur verið gagnrýndur mjög fyrir að leggja samræmdu könnunarprófin af án þess hafa komið með nokkuð í þeirra stað, og ekki síður fyrir óljós áform um nýtt námsmat.
Ljóst má vera að þessari inngjöf sé ætlað að mæta þeirri gagnrýni.
Um er að ræða afnám samræmdu könnunarprófanna fyrir fullt og allt, en þau hafa ekki verið lögð fyrir á síðustu árum eftir að ráðherra gafst upp á því.
Lagt er til að nýja námsmatið standi öllum skólum til boða skólaárið 2025-2026 og verði tilbúið til skyldubundinnar notkunar um allt land skólaárið 2026-2027.
Áður stóð til að stærðfræðihluti matsferilsins yrði aðeins tekinn í gagnið á síðarnefnda skólaárinu.
Enn þá stendur til að lesskilningshluti matsferilsins verði fyrst lagður fyrir fjóra grunnskólaárganga skólaárið 2025 til 2026. Nú mun stærðfræði bætast þar við, fyrir þrjá árganga.
Þórdís segir stofnunina hafa svigrúm til að gefa í, hvað varðar innleiðingu stærðfræðihluta matsferilsins.
„Stofnunin er svo glæný. Við byrjuðum á því að búa til plan sem við treystum okkur til þess að fylgja og það var lesskilningurinn, að leggja áherslu á hann svo hann fengi sitt rými,“ segir Þórdís.
Stofnuninni var komið á fót fyrr á þessu ári og á að vera hluti af lausn við vanda íslenska skólakerfisins.
„Svo þegar við skoðuðum þetta þá sáum við að það var rými hjá okkur til þess að gefa aðeins í, þannig að það er niðurstaðan. Við ætlum að standa með því að á næsta skólaári verði þá líka stærðfræði í þremur árgöngum.“
Vinna við námsmatstæki sem eiga að mæla færni í náttúruvísindum og öðrum tungumálum er ekki enn hafin.
Þegar nýja námsmatið verður tilbúið til skyldubundinnar notkunar, samkvæmt áætlunum ráðherra, verða sjö skólaár liðin án þess að nokkurt heildstætt samræmt mat hafi farið fram á hæfni íslenskra grunnskólabarna.
Á sama tíma hefur frammistaða þeirra hrunið í alþjóðlegum samanburði og innan skólakerfisins er ekki búist við að þeirri þróun verði snúið við í bráð.
Árangur íslenskra nemenda versnaði til muna í síðustu PISA-könnun, frá fyrri árum þar sem þróunin hafði þó verið niður á við, og hvergi var fallið meira innan OECD en hér á landi.
47% fimmtán ára drengja hérlendis búa ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi samkvæmt könnuninni. Á meðal stúlkna er hlutfallið 32%. Í síðustu könnun árið 2018 var hlutfall drengja 34% en 19% stúlkna megin.
Tveir prófessorar og dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands hafa sagt óráðlegt að leggja af samræmdu prófin án þess að nýtt kerfi sé tilbúið til notkunar sem geti leyst þau af hólmi.
„Alkunna er að íslenskt skólakerfi stendur mjög höllum fæti og einnig að fyrirkomulag námsmats hefur lykilhlutverki að gegna í virkni menntakerfisins. Hér er því um afdrifaríkar ákvarðanir að ræða sem munu hafa veruleg áhrif á menntun íslenskra ungmenna næstu árin,“ segir í umsögn Freyju Hreinsdóttur, prófessors í stærðfræði og stærðfræðimenntun, Hauks Arasonar, dósents í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun, og Meyvants Þórólfssonar, prófessors emeritus í námskrárfræði, námsmati og náms- og kennslufræðum, um áform ráðherrans sem kynnt voru fyrr í sumar.
Sögðust þau telja afnám samræmds námsmats leiða til lakari árangurs nemenda og til aukins misréttis í menntakerfinu.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sagði í viðtali við Morgunblaðið á mánudag fyrir viku að matsferill þyrfti að koma sem fyrst til framkvæmda og hraða þyrfti vinnu við hann eins og kostur væri.
Kristín Jónsdóttir, kennslukona og dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands, sakaði ráðherrann um uppgjöf með því að leggja samræmdu prófin af.
„Við sem samfélag þurfum yfirsýn. Grunnskólakerfið á að virka vel fyrir öll börn, óháð því hvar á landinu þau búa eða í hvaða skóla þau ganga. Gögn sem fást með samræmdum prófum veita innsýn í hversu vel skólakerfið okkar virkar á landsvísu og hvernig ýmsir þættir þróast milli ára,“ sagði í umsögn Kristínar.
Hún benti samt sem áður á að mikilvægt væri fyrir stofnunina að fá fjármagn og mannafla til að ljúka við gerð nýja námsmatsins sem fyrst, enda myndu kennarar og skólar geta notað nýja matið á marga vegu.
„Matstæki matsferils munu þó ekki geta komið í stað samræmdra prófa,“ ítrekaði hún þó.
Í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is í júlí krafði umboðsmaður barna ráðherra um svör og spurði hvort fyrir hendi væri skýr og heildstæð áætlun um innleiðingu á nýju samræmdu námsmati.
Óskaði hann einnig eftir upplýsingum um hvenær áætlað væri að nýtt samræmt mat yrði innleitt að fullu.
Ráðherra hefur ekki svarað umboðsmanni svo vitað sé.
Umfjöllunin birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 17. ágúst.