Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur farið í nokkur útköll nú í kvöld vegna vatnsleka. Allir lekarnir eru í þeim hverfum á höfuðborgarsvæðinu þar sem skrúfað var fyrir heita vatnið klukkan tíu í kvöld vegna vinnu Veitna við tengingu á Suðuræð 2.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er erfitt að svara því hvort lekann megi rekja til framkvæmda Veitna sem hófust kl. 22 í kvöld, en fyrsta útkallið vegna leka barst um sexleytið.
Hefur það þó vakið upp spurningar, hvort um sé að ræða auka þrýsting á kerfinu eða hvort þetta sé tilfallandi.
Hins vegar þykir það mjög óvanalegt að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins þurfi að sinna útkalli vegna þriggja sprunginna ofna á mismunandi stöðum á þremur klukkutímum.