Skjálftum fjölgar dag frá degi

Áfram er líklegt að dragi til tíðinda á Sundhnúkagígaröðinni með …
Áfram er líklegt að dragi til tíðinda á Sundhnúkagígaröðinni með kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Undanfarna daga hefur skjálftum fjölgað dag frá degi í kringum Sundhnúkagígaröðina. Um 110 skjálftar mældust í gær, 18. ágúst, en í síðustu viku voru þeir um 60 til 90 á sólarhring. Fleiri en 50 skjálftar hafa mælst frá miðnætti.

Þetta kemur fram í nýrri uppfærslu frá Veðurstofu Íslands vegna skjálftavirkni á Sundhnúkagígaröðinni.

Líklegt að dragi til tíðinda

„Áfram er því líklegt að dragi til tíðinda á Sundhnúksgígaröðinni með kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni en þar segir að skjálftavirkninni nú svipi mjög til skjálftavirkninnar dagana fyrir eldgosið sem hófst 29. maí.

Flestir skjálftanna sem mælast eru undir 1,0 að stærð en um helgina mældust þó tveir skjálftar yfir 2,0 að stærð. Annar þeirra var skammt austan við Sýlingarfell og hinn á milli Hagafells og Sýlingarfells.

Sá síðarnefndi var 2,5 að stærð og er það stærsti skjálftinn sem hefur mælst á svæðinu frá því að síðasta eldgosi lauk.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert