„Smotterí“ eftir af fjármögnun framboðs Baldurs

Baldur sagði í kosningabaráttunni að hann skyti á að framboð …
Baldur sagði í kosningabaráttunni að hann skyti á að framboð sitt myndi kosta 20 milljónir í heildina. mbl.is/Arnþór

Baldur Þórhallsson segir að það sé „smotterí“ eftir af fjármögnun við kostnað forsetaframboðs síns.

„Það gengur bara vel að ganga frá reikningum hjá okkur, það er bara smotterí sem er óuppgert sem við göngum frá líklega bara í dag og svo liggur þetta allt fyrir um mánaðamótin,“ segir Baldur í samtali við mbl.is.

Skila þarf uppgjöri 1. september

Baldur er prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og bauð sig fram til forseta í kosningum í sumar þar sem hann hlaut 8,4% og endaði fimmti af tólf frambjóðendum.

Hann segir að uppgjöri kosningabaráttunnar eigi að skila til Ríkisendurskoðunar eigi síðar en 1. september.

„Það er nú eiginlega búið að greiða allt jú, það er eiginlega bara eitthvað smotterí sem svona, einhverjar eftirlegukindur, bara eitthvað smotterí, þannig séð búið að greiða allt, bara smotterí eftir,“ segir Baldur.

Skaut á framboðið myndi kosta 20 milljónir

Í kappræðum ríkissjónvarpsins í maí sagðist Baldur skjóta á að framboðið myndi kosta 20 milljónir króna og að það væri fyrst og fremst fjármagnað með fjár­fram­lög­um.

Spurður hvort framboðið hafi kostað meira eða minna en lagt var upp með segist hann eiga erfitt með að svara því.

„Í sannleika sagt að þá ég erfitt með að svara þessu fyrr en uppgjörið liggur fyrir,“ segir Baldur.

Athygli vakti í seinustu viku þegar framboðsteymi Katrínar Jakobsdóttur óskaði eftir styrkjum til að klára að fjármagna kostnaðinn við framboð hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka