Stöðvuðu Búrfellsstöð 1 um helgina

Lokað var fyrir vatnsinnstreymi að öllum sex vélum Búrfellsstöðvar 1 …
Lokað var fyrir vatnsinnstreymi að öllum sex vélum Búrfellsstöðvar 1 á laugardaginn vegna umfangsmikils viðhaldsverkefnis. Í kjölfarið var annar af tveimur vatnsvegum að stöðinni tæmdur og er nú unnið að viðhaldi á fjórum af sex vélum stöðvarinnar, sem og öðrum af tveimur vatnsvegum hennar. Ljósmynd/Landsvirkjun/Georg Þór Pálsson

Mjög umfangsmikið viðhaldsverkefni stendur nú yfir í Búrfellsvirkjun og var öll raforkuframleiðsla í Búrfellsstöð 1 stöðvuð á laugardaginn. Þurfti meðal annars kafara til að kafa að öryggislokum þegar lokað var fyrir vatnsinntak virkjunarinnar.

Hluti framleiðslunnar er kominn af stað á ný, en unnið verður að viðhaldi á fjórum af sex vélum virkjunarinnar næstu tvær vikur. Áfram er framleiðsla í Búrfellsstöð 2, sem er nýrri stöðin á svæðin og var gangsett árið 2018.

Fyrsta skipti í 20 ár sem kíkt er inn í pípuna

Þetta er í fyrsta skipti í 20 ár sem ráðist er í jafn umfangsmikið viðhaldsverkefni í stöðinni, en stöðvarstjóri segir að líklega verði því áframhaldið næsta sumar með seinni tvær vélarnar.

Búrfellsstöð var gangsett árið 1969, en þar eru sex vélar sem hver um sig getur framleitt 45 megavött og er afl stöðvarinnar því samtals 270 megavött og orkuvinnslugeta 2.300 gígavattsstundir á ári.

Georg Þór Pálsson, stöðvarstjóri í Búrfelli, segir í samtali við mbl.is að það hafi verið kominn tími á ástandsskoðun og viðhald að þessari stærðargráðu, en almennt sé miðað við að slíkt fari fram á um 20 ára fresti. Því sé þetta í fyrsta skipti í 20 ár sem kíkt er inn í pípuna. Í leiðinni sé svo tækifærið notað og unnið að viðhaldsverkefnum á spennum og öðrum innviðum sem erfitt sé að sinna þegar vélarnar séu í gangi. „Við nýtum hvert stopp í að sinna sem flestum verkþáttum,“ segir hann.

Um 25 starfsmenn komu að verkefninu um helgina, en verða …
Um 25 starfsmenn komu að verkefninu um helgina, en verða allt að 40 á næstu tveimur vikum. Ljósmynd/Landsvirkjun/Georg Þór Pálsson

Tvær af sex vélum aftur settar í gang

Vélar Búrfellsstöðvar 1 voru stöðvaðar klukkan 7:30 um morguninn á laugardaginn, en þá þurfti að stöðva allar sex vélar virkjunarinnar. Að virkjuninni liggja tvær þrýstipípur sem leiða vatn að vélunum. Var þrýstipípa 2 tæmd, en hún leiðir vatn að vélum 4,5 og 6. Þurftu karfarar að kafa að öryggislokum þar sem lokað er fyrir þrýstivatnspípuna til að tryggja að ekkert efni væri fyrir sem kæmi í veg fyrir að lokufalsið yrði nógu þétt. Var það nauðsynlegt til að tryggja að ekkert vatn fari inn í vatnsvegina meðan vinna stendur þar yfir næstu tvær vikur.

Var vatni úr Bjarnalóni á þessum tíma stýrt framhjá og í eldri farveg Þjórsár.

Seinni partinn á laugardaginn, þegar búið var að loka alveg fyrir þrýstipípu 2 var hægt að ræsa á ný vélar númer 1 og 2 í virkjuninni, en þær fá vatn um þrýstipípu 1. Meðan viðhaldsverkefnið stendur yfir verða því vélar 3, 4, 5 og 6 úti, ásamt afl- og dreifspennum.

Hefur ekki áhrif á vatnssöfnun

Georg segir viðhaldsvinnuna ekki hafa áhrif að neinu ráði á vatnssöfnun í lón Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Líkt og fjallað hefur verið um í sumar er talið ólíklegt að Þórisvatn fyllist, en það hefur ekki fyllst í fjögur ár í röð. Er því mögulegt að Landsvirkjun þurfi aftur að fara í vatnssparandi aðgerðir í vetur breytist tíðin ekki, en staðan í ár er með lakara móti. Hefur síðustu ár komið til slíkra aðgerða vegna slakrar vatnsstöðu í lónum fyrirtækisins.

Georg bendir á að Búrfellsstöð sé neðsta stöðin á Þjórsársvæðinu og að Þórisvatn sé aðaluppistöðulónið, meðan neðri lón taki dag- og vikusveiflur. Segir hann að lónin ofar Bjarnalóni muni áfram safna vatni þó einhverju sé hleypt framhjá í gamla farveg Þjórsár.

Allt að 40 starfsmenn koma að viðhaldinu

Hann segir að um helgina hafi um 25 starfsmenn komið að tæmingu vatnsveganna og undirbúnings, en að núna næstu tvær vikur verði um 35-40 starfsmenn í viðhaldi að staðaldri. Ekki er enn búið að fara inn í vatnsveginn, en það verður gert seinni partinn í þessari viku og ástand hans metið. Það er Sigurður Einar Guðjónsson, starfsmaður á Þjórsársvæði Landsvirkjunar, sem er með verkefnastjórn á viðhaldsverkefninu, en hann mun meðal annars stýra uppsteypu á eldveggjum milli spenna í spennubásum stöðvarinnar og skoðun og úttekt á þrýstivatnspípunni sem var tæmd.

Varðandi vélar 1 og 2, sem settar voru aftur í gang á laugardaginn, segir Georg að þær hafi ekki þurft viðhald að svo stöddu, en að mögulega verði það skoðað næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert