Vaknar alkóhólisti hvern morgun

Jódís Skúladóttir brá beittum skeytum á Rauða borðinu í dag …
Jódís Skúladóttir brá beittum skeytum á Rauða borðinu í dag og dró hvergi undan hvað eigin áfengisneyslu snerti en fór heldur ekki í grafgötur með skoðanir sínar á drykkju á vinnustöðum, þar á meðal þjóðþinginu, og því eldfima umræðuefni sem aðgengi að vökvanum görótta er í öllum vestrænum þjóðfélögum þar sem sumir eru veikir fyrir á meðan aðrir þola drykkinn eins og jötnarnir í ljóði Gríms Thomsen um Goðmund á Glæsivöllum.

„Já, ég náði þeim merkaáfanga núna fyrir helgi,“ sagði Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í viðtali í dagskrárliðnum Rauða borðinu á Samstöðinni í dag þar sem hún ræddi áfengisdrykkju og þjóðfélagsmál við Björn Þorláksson blaðamann og dró þar ekkert undan enda hefur hún marga fjöruna sopið þar sem áfengi, fíkn og mannlegur breyskleiki eru á fleti fyrir.

Kveðst Jódís hafa rekið tappann í flöskuna ung, forsaga þess væri að hún hefði alist upp við áfengissýki og haft mikið um hana að segja mestalla sína ævi, meðal annars alist upp á meðferðarheimilinu Gunnarsholti þangað sem „fólk götunnar“ hefði vanið komu sína og því tengdust hennar fyrstu bernskuminningar.

„Foreldrar mínir starfa við þetta heimili, faðir minn var alkóhólisti [...] það var orðið eitthvað skakkt innra með mér áður en ég tók fyrsta sopann,“ segir þingmaðurinn hispurslaust af þessum kafla ævi sinnar. Hún hafi verið mjög meðvirkt barn og tekið neyslu annarra inn á sig. Fyrsta sopann hafi hún tekið allt of ung. „Ég var ekkert ólík mínum félögum þar,“ segir hún og rifjar upp æskuárin þar sem ungt fólk drakk brennivín í kraftgöllum og reyndi að svindla sér inn á böll.

Löngu áður en hún varð sextán

Áfengið hafi svipt hana kvíða, skömm og ósýnileika. „Krepptir hnefarnir losnuðu og hnúturinn í maganum leystist. Áfengi átti mig frá fyrstu stundu,“ segir Jódís sem ung drakk allar helgar og stóra mál vikunnar var að redda í ríkið og græja og gera. „Já já, þetta var löngu áður en ég varð sextán,“ svarar hún spurningu þar að lútandi.

Nýlega orðin fjórtán ára varð hún barnshafandi sem hún kveður hafa verið gríðarlegt áfall. Hún hafi þurft að fara að stjórna sinni eigin drykkju. „Ég held að minn alkóhólisti þróist mjög hratt,“ segir Jódís hugsi og spyr sig hvort drykkjan hafi í raun bara verið leið til að deyfa einmanaleika og áföll.

Hún hafi leitað sér meðferða og meðal annars dvalið á hinu nafntogaða Staðarfelli í Dölum sem hafi verið eftirminnilegt. „Ég held að ég hafi ekki náð boðskapnum algjörlega sem mér var kenndur í meðferð og á AA-fundum,“ segir Jódís og bætir því við að það að vera edrú í 25 ár sé meira að gera það en segja. Hún vakni alkóhólisti á hverjum morgni.

Sturluð umræða

Segir þingmaðurinn þá sem örkumlast vega mun þyngra en þá sem sigla greiðan byr gegnum drykkju, rétt eins og þegar umferðarslys eru til umræðu og vill skerða aðgengi að áfengi, „búsið úr búðunum“ segir Jódís. Það séu engin gríðarleg réttindi að geta farið út í Hagkaup að kaupa vín. „Mér finnst þetta svo sturluð umræða,“ segir hún og telur aðgengi að áfengi á Íslandi meira en nægt.

Hún telur hugmyndina um að einhver sé að drekka brennivín, og það hafi almennt engin áhrif á nokkurn annan, flotta. Verið sé að grilla og viðstaddir að fá sér í glas svo dæmi sé nefnt. Hins vegar verði samfélagið að horfast í augu við að áfengi sé mein. Aukið aðgengi og frelsi sé einfaldlega ekki lýðheilsulega gott. „Þú getur keypt þér áfengi í ÁTVR flesta daga vikunnar og öll kvöld vikunnar geturðu keypt þér áfengi úti á bar, aðgengið er yfirgengilegt,“ segir Jódís.

Tekur hún því næst fyrir áfengisneyslu á þjóðþinginu. Þinglok séu vissulega alltaf erfið. „Þegar þú ert á leið í ræðustól í hæsta stað landsins, Alþingi Íslendinga, þá er bara alveg út úr korti að fólk sé að neyta áfengis,“ segir hún ákveðin en Jódís tók drykkju á Alþingi upp við forsætisnefnd þingsins.

Það er ekki í lagi...

„Ég ætla ekki að gera Alþingi Íslendinga að öðruvísi vinnustað en öðrum og það ítreka ég – mér finnst það gríðarleg vanvirðing við land og þjóð og kjósendur að fólk sé að neyta áfengis á vinnutíma sínum, en okkur til varnaðar heyri ég líka að þetta hafi lagast mikið,“ heldur Jódís máli sínu áfram og kveðst hafa heyrt svæsnar drykkjusögur af þinginu á fyrri tíð. „Þegar við erum að [...] taka ákvarðanir um lög og reglur sem almenningur á að fara eftir – það er ekki allt í lagi að vera undir áhrifum,“ segir Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð og kveðst hvergi nærri vera ein á borði.

„Við erum í grunninn svo ósammála málefnalega um marga hluti en að öðru leyti erum við miklir vinir og erum sammála í ákveðnum málaflokkum. Ég ætla að fá að nefna meðferðarmál,“ segir hún enn fremur og kveður flesta þingmenn þar sammála um flest annað en hvaða leiðir beri að fara í þeim efnum. Hvort allir þurfi til dæmis sjúkrahúsinnlögn, dýrasta úrræði meðferðarmála, er spurning sem þingmaðurinn varpar fram á Rauða borðið. Meðferð fyrir alkóhólista eigi að vera rekin eins og öll önnur heilbrigðisþjónusta. „Ég hef gríðarlegar áhyggjur af stanslausri einkavæðingu innan hins almenna heilbrigðiskerfis undanfarin misseri,“ er meðal þess sem Jódís leggur á borðið og boðar að á þessu muni hún hamra á komandi þingvetri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert