Vegurinn inn í Landmannalaugar með versta móti

Vegurinn inn í Landmannalaugar er um þessar mundir mjög holóttur …
Vegurinn inn í Landmannalaugar er um þessar mundir mjög holóttur og segir yfirlandvörður að vegurinn verði ekki mikið verri. Verktaki á vegum Vegagerðarinnar mun í vikunni klára að hefla veginn. mbl.is/Þorsteinn

Fjallabaksleið nyrðri inn í Landmannalaugar er með allra versta móti þessa dagana, en ástæða þess er rigningarveður að undanförnu sem varð þess valdandi að Vegagerðin gat ekki heflað veginn. Nú stefnir hins vegar í að það verk verði klárað á næstu dögum.

Í síðustu viku var starfsmaður á vegum Vegagerðarinnar að störfum á veghefli bæði á Landmannaleið (Dómadalsleið) og Sigölduleið inn í átt að Landmannalaugum. Voru leiðirnar orðnar nokkuð illa farnar, enda með vinsælustu fjallvegum landsins og mikil umferð um þær yfir sumartímann.

Veghefill er staðsettur að Fjallabaki og mun í vikunni klára …
Veghefill er staðsettur að Fjallabaki og mun í vikunni klára að hefla veginn inn í Laugar. mbl.is/Þorsteinn

Stórar holur og farið hægt yfir

Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðursvæði, segir að reynt sé að hefla þessar vinsælustu leiðir tvisvar eða þrisvar yfir sumartímann. Jafnan er það gert í upphafi sumars og svo eftir verslunarmannahelgi, eða oftar ef þörf er á. Þannig var planið að klára að hefla inn í Laugar nú öðru hvoru megin við helgina.

Ingunn Ósk Árnadóttir, yfirlandvörður í friðlandinu að Fjallabaki, segir í samtali við mbl.is að vegurinn inn í Landmannalaugar sé nú með versta móti og að hann verði ekki mikið verri.

Blaðamaður keyrði þar inn eftir um helgina og voru stórar holur frá Ljótapolli og langleiðina að Frostastaðahálsi og svo aftur hinu megin við hálsinn og alla leið inn í Laugar. Voru holurnar það stórar að jafnvel jeppar á stórum dekkjum þurfa að fara þar einstaklega hægt um.

Talsverð umferð er um Fjallabak nyrðra og getur á nokkrum …
Talsverð umferð er um Fjallabak nyrðra og getur á nokkrum stöðum myndast flöskuháls þar sem fólk vill stoppa á meðan aðrir vilja keyra framhjá og á sama tíma eru stórar holur í veginum sem hægja á allri umferð. mbl.is/Þorsteinn

Votviðri og mikil umferð

Ingunn segir ástæðuna fyrir ástandi vegsins vera veðurfar að undanförnu. „Vegagerðin ætlaði að vera komin, en svo rigndi, rigndi og rigndi og það er ekki hægt að hefla veginn meðan hann er blautur,“ segir hún. Byrjað hafi verið í síðustu viku bæði frá Sigöldu og Landmannaleið, en ekki hafi náðst að klára alla leið inn í Laugar.

Svanur staðfestir við mbl.is að stefnt sé að því að klára þá vinnu nú strax í þessari viku.

Spurð um hvernig ástand vegarins hafi verið í sumar segir Ingunn að hann hafi farið að versna mikið upp úr verslunarmannahelgi, en annars hafi hann verið ágætur fram að því. Segir hún að bæði sé um mikið keyrðan veg að ræða og þá hafi votviðrið haft mikið að segja og þá vindi þetta fljótt upp á sig og vegurinn verði fljótt slæmur.

Vegurinn er holóttur frá Landmannalaugum að Frostastaðahálsi og svo aftur …
Vegurinn er holóttur frá Landmannalaugum að Frostastaðahálsi og svo aftur hinu meginn við hálsinn. mbl.is/Þorsteinn

Lítið um tjón

Ingunn segist ekki muna eftir að hafa heyrt af því að bílar hafi orðið fyrir tjóni að ráði vegna ástandsins, en þó hafi einhver misst vélarhlíf og talsvert sé um númeraplötur sem greinilega hafi rekist niður í stærstu holunum og dottið af.

Hún segir besta ráðið fyrir fólk að taka sér góðan tíma til að komast inn í Landmannalaugar næstu daga þangað til að búið sé að hefla og reyna bara að njóta útsýnisins um friðlandið í leiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert