Vilja gera getnaðarvarnir fríar fyrir ungt fólk

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna, ávarpaði fundinn.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna, ávarpaði fundinn. Ljósmynd/Gústi Bergmann

Vinstri græn vilja gera getnaðarvarnir fríar fyrir ungt fólk, að ráðist verði í róttækar breytingar á húsnæðismarkaði og að máltíðir framhaldsskólanema verði gjaldfrjálsar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Vinstri grænna sem lauk í gær. 

Ályktun VG vakti athygli fyrr í dag en í henni er einnig fordæmd ákvörðun Bjarna Benediktsson­ar, for­sæt­is­ráðherra og fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra, um að frysta tíma­bundið greiðslur til Palestínuflótta­mannaaðstoðar Sam­einuðu þjóðanna (UNRWA).

Alls voru ályktanirnar sautján talsins.

„Tryggja þarf gott aðgengi fyrir ungt fólk að ráðgjöf og endurgjaldslausum getnaðarvörnum því fólk á ekki að þurfa að standa frammi fyrir fjárhagslegum hindrunum þegar það tekur ábyrgð á eigin kynheilbrigði,“ segir í ályktuninni.

Vilja skoða lausnir eins og „samvinnubúsetu“

Þá er kallað eftir róttækum breytingum á húsnæðismarkaði til að tryggja „félagslegt réttlæti“ og aðgengi allra að öruggu húsnæði.

Flokkurinn vill að búsetuform sé fjölbreytt og sé meðal annars í formi húsnæðissamvinnufélaga og annarra óhagnaðardrifinna húsnæðis- og leigufélaga þar sem aðkoma hins opinbera er tryggð.

„Mikilvægt er að skoða einnig nýjar og skapandi lausnir í húsnæðismálum svo sem samvinnubúsetu og aukna aðkomu húsnæðissamvinnufélaga og annarra óhagnaðardrifinna aðila á húsnæðismarkaði,“ segir í ályktuninni.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna fór fram í Reykjanesbæ.
Flokksráðsfundur Vinstri grænna fór fram í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Gústi Bergmann

Vilja gjaldfrjálsar máltíðir í framhaldsskóla

Í kjarapakka stjórnvalda vegna kjarasamninga fyrr á árinu var ákveðið að gera skólamáltíðir í grunnskólum gjaldfrjálsar.

Nú vilji Vinstri græn ganga lengra og gera skólamáltíðir í framhaldsskólum gjaldfrjálsar sem og öll námsgögn fram að 18 ára aldri.

Vindorka eigi að heyra undir rammaáætlun

Fundurinn ályktaði líka um nýtingu vinds til orkuöflunar. Flokkurinn ítrekar mikilvægi þess að mörkuð sé stefna um nýtingu vinds hvort sem um er að ræða á landi eða sjó.

„Fundurinn ítrekar þá kröfu Vinstri grænna að vindorka eiga að heyra undir lagaumgjörð rammaáætlunar. Auðlindagjald af vindorkuvirkjunum renni til samfélagsins alls og fyrirtæki í almannaeigu hafi forgang við úthlutun nýtingarleyfa,“ segir í ályktuninni.

Mynd frá fundinum.
Mynd frá fundinum. Ljósmynd/Gústi Bergmann
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert