Áhrif Príss: Bónus og Krónan lækka

Verslunin Prís er boðberi þeirra tíðinda sem ekki hafa heyrst …
Verslunin Prís er boðberi þeirra tíðinda sem ekki hafa heyrst lengi á íslenskum matvörumarkaði, svo lengi að verðlagseftirlitsstjóri ASÍ á erfitt með að spá um áhrif til lengri tíma. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

„Já, það eru einhverjar vörur sem hafa lækkað niður í það verð sem Prís er að bjóða,“ segir Benjamín Julian Dagsson, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, í samtali við mbl.is. Hann er inntur eftir verðlækkunum Bónuss og Krónunnar í kjölfar innkomu nýju lágvöruverðsverslunarinnar Príss á íslenskan matvörumarkað.

Aðspurður segir Benjamín ekki hlaupið að því að svara því hver áhrif nýrrar verslunar, sem stefnir á að bjóða lægsta verð markaðarins, verði á vettvangi dagvöruverslunar – slíkt hafi einfaldlega ekki gerst á Íslandi í háa herrans tíð.

„Krónan fór í verðstríð við Bónus á sínum tíma en það var gert með aðferðum sem eru ekki við lýði í dag, markaðsráðandi aðilar eru ekki að bjóða vörur undir kostnaðarverði og nú er ég bara að vitna í nýlegt viðtal við framkvæmdastjóra Bónuss, þetta eru ekki mín orð,“ segir Benjamín.

Gaman að sjá nýtt módel

Kveðst hann telja að í einhverjum tilfellum verði Prís ódýrasta verslunin svo lengi sem stjórnendur hennar kjósi að greiða niður vörur. En er matvöruverð á Íslandi of hátt? Sú umræða hefur verið lífseig misserum saman.

„Það er mjög hátt og það er langt síðan eitthvað nýtt hefur verið prófað á matvörumarkaðinum. Það er gaman að sjá að verið sé að reyna nýtt módel og einhverja nýbreytni, það gæti hrist upp í einhverju og maður veit aldrei hvar sparnaðartækifærin leynast,“ segir verkefnastjórinn og er spurður hvað honum þyki í samanburði við önnur norræn ríki. Í Danmörku ríkir virk samkeppni á matvörumarkaði, í Noregi þekkist hún varla, þar bjóða ólíkar verslunarkeðjur nánast sama vöruúrval og munar ekki miklu í verði nema hvað dagvörurisinn Meny er ívið dýrari en aðrar keðjur.

„Hvað Prís snertir er þar boðið upp á mikið úrval vara sem eru ekki á boðstólum annars staðar, Prís er að prófa nýja birgja og samstarfsaðila. Þarna gætu einhverjir séð sér leik á borði til að athuga hvort þeir geti lækkað sín útgjöld, einhver sort af baunum eða annar pakki af bleium er kannski ódýrari en það sem við erum vön að kaupa,“ segir Benjamín um vöruúrval Príss.

Hann segir íslenska neytendur vel með á nótunum, það megi til dæmis ráða af Facebook-hópnum „Vertu á verði“ sem verðlagseftirlit ASÍ hleypti af stokkunum, þar fari fram virk umræða auk þess sem skoðanaskipti og ábendingar séu fyrirferðarmikil.

„Það er greinilegt að fólk lætur sig þetta varða,“ segir Benjamín Julian Dagsson hjá ASÍ að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert