Bagalegt fyrir alla hlutaðeigandi

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ætlar ekki að tjá sig um málið …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ætlar ekki að tjá sig um málið meðan það er til skoðunar innan og utan ráðuneytisins. Samsett mynd

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki hafa tekið neina ákvörðun vegna máls Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara sem nú er á borði hennar.

Í síðasta mánuði lagði Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari til við dómsmálaráðherra að Helgi Magnús yrði leystur frá störfum tímabundið vegna ummæla í garð hinsegin fólks og útlendinga.

„Ég ákvað að leita mér ráðgjafar bæði bæði innan og utan ráðuneytisins og ég er sömuleiðis að bíða eftir áliti eða ráðgjöf annars staðar frá þannig að ég mun ekkert gera fyrr en ég búin að fá það,“ sagði Guðrún í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Guðrún segist vel vita að þetta mál sé bagalegt fyrir alla hlutaðeigandi en segist þurfa að gefa sér tíma til geta tekið góða og vel ígrundaða ákvörðun.

Er ekki óheppilegt að tveir af æðstu embættismönnum þjóðarinnar í réttavörslukerfinu séu að takast á með þessum hætti?

„Ég hef sagt það að þetta er starfsmannamál hjá einu æðsta embætti þjóðarinnar sem er ákæruvaldið og ég mun ekki tjá mig um þetta mál með neinum hætti fyrr en þar að kemur,“ segir dómsmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka