Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 22 ára gamla konu í 14 mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði óskilorðsbundið, fyrir brot gegn valdstjórninni, eignaspjöll á lögreglubifreiðum og bifreiðum einstakra lögreglumanna, auk brota á sérrefsilöggjöf.
Fram kemur í dómnum, að með hluta brotanna hafi konan rofið skilorð fjögurra mánaða fangelsisdóms sem henni var birtur 3. júní 2024 og var sá dómur tekinn upp og dæmdur með.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur konunni 7. ágúst fyrir fjölmörg brot, en ákæran er alls í sjö liðum.
Hún var meðal annars sökuð um að brjóta rúður í bifreiðum með neyðarhamri, en nokkrar lögreglubifreiðar voru á meðal þeirra ökutækja sem konan skemmdi.
Þá sparkaði hún í lögreglumann þegar hún var handtekin í júní auk þess sem hún hótaði lögreglumanni ofbeldi með því að skilja eftir miða undir rúðuþurrku á einkabifreið lögreglumannsins.
Hún var ennfremur sökuð um nokkur umferðar- og lögreglulagabrot. M.a. fyrir að hafa ekið bifreið án ökuskírteinis. Þá ók hún á brott eftir að lögreglumaður bað hana um að bíða eftir að hafa stöðvað hana við akstur. Lögreglan þurfti einnig í einu tilviki að veita henni eftirför.
Fram kemur í dómnum að konan hafi játað sök við þingfestingu málsins.
Héraðsdómur segir að við ákvörðun refsingar hafi verið litið til ungs aldurs konunnar, greiðrar játningar fyrir dómi og þess að hún hafi reynst samvinnufús við lögreglu á lokastigum rannsóknar.
„Á hinn bóginn verður ekki framhjá því horft að ákærða er nú sakfelld fyrir 15 afbrot, þar af tvö brot gegn valdstjórninni og þykja slík brot í eðli sínu alvarleg. Bætir ekki úr skák að ákærða hefur áður verið dæmd fyrir sams konar brot, sbr. 3. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og er að auki uppvís að endurteknum skilorðsrofum. Annað framferði ákærðu gagnvart lögreglu og einstökum lögreglumönnum, sér í lagi umtalsverðar skemmdir á tólf bifreiðum í eigu hins opinbera og einkaaðila, er vandskýrt en af fyrirliggjandi gögnum um [...]. Síðast greind atriði réttlæta fráleitt háttsemi ákærðu en geta eftir atvikum skýrt hana að einhverju leyti og þykir mega hafa þau í huga við ákvörðun refsingar,“ segir í dómi héraðsdóms.
Konan var dæmd til að greiða 2,3 milljónir kr. í sakarkostnað auk þess sem bótaskylda hennar, m.a. gagnvart lögreglustjóranum á Suðurnesjum, var viðurkennd.