Breyttar útfærslur í uppfærðum samgöngusáttmála

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra mbl.is/Eyþór mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segist hafa bent á verðhækkun samgöngusáttmálans fyrir ári síðan og að ekki hafi verið annað hægt en að lengja framkvæmdatímann. Þá segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra að ný uppfærsla samgöngusáttmálans verði kynnt í smáatriðum á morgun og verið sé að taka alvöru skref inn í framtíðina.

„Það hefur legið fyrir sem sagt í heilt ár að einstaka framkvæmdir voru verulega vanmetnar eða voru inni í samgöngusáttmálanum upphaflega án þess að fullnægjandi óvissubil væri nefnt. Það var mjög bagalegt og ég hef gagnrýnt það,“ segir Bjarni og nefnir að það hafi ekki hjálpað til í umræðu um sáttmálann að hún hafi verið byggð á vanáætluðum framkvæmdakostnaði.

Segir hann að í sáttmálanum hafi verið einstaka framkvæmdir sem að í raun og veru voru byggðar á lausnum sem ekki komu til greina.

Margar framkvæmdir hafnar

„Það sem að eru stóru fréttirnar í því sem að framundan er núna eru þær að við höfum náð miklu betur utan um þetta og erum kominn með miklu nákvæmari áætlanir á allar þessar framkvæmdir,“ segir Bjarni. Nefnir hann þá að framkvæmdir séu hafnar og þannig séð er samgöngusáttmálinn kominn til framkvæmda.

„Það er búið að fara í margar framkvæmdanna og sumar langt komnar. Arnarnesvegur og Vesturlandsvegur eru dæmi um það. Stóru tíðindin í þessu núna eru þá núna að við erum komin með uppfærslu á áætlunum. Við erum sömuleiðis með nýtt samkomulag við sveitarfélögin varðandi almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.“

Segir Bjarni að ekki sé annað hægt en að bregðast við þeim aðstæðum sem hafa breyst síðan sáttmálinn var upphaflega kynntur.

„Bílum er að fjölga meira en við sáum fyrir árið 2019. Fólki er að fjölga meira á höfuðborgarsvæðinu heldur en við sáum fyrir 2019. Þörfin er brýnni heldur en við mátum hana 2019. Þannig við erum bara spennt fyrir því að kynna heildstætt plan sem að jú mun taka lengri tíma en kynnir til sögunnar uppfærslu og nútímavæðingu á samgöngukerfinu öllu fyrir höfuðborgarsvæðið.“

Ástæða til að endurskoða útfærslu á Miklubraut

Nefnir þá Bjarni að það hafi ekki verið annað hægt en að lengja framkvæmdartíma sáttmálans, en greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að hann hafi verið framlengdur um sjö ár.

Eru öll verkefni upphaflega sáttmálans ennþá á borðinu eða hafa einhver þeirra dottið út?

„Sumum þeirra er verið að breyta. Í grunninn erum við ekki að hætta við áform um stærri framkvæmdir en einhverjar eru að taka breytingum í útfærslu.“

Er hægt að nefna einhverjar af þeim?

„Það er meira svona inn í lengri framtíð en Miklabrautin er dæmi um framkvæmd sem að við teljum ástæðu til að endurskoða og mögulega breyta útfærslunni á í grundvallaratriðum.“

Stenst samanburð við aðrar borgir

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra segir það ljóst að ríkið skuldi höfuðborgarsvæðinu uppbyggingu.

„Við erum að tala um lengri tíma og við erum líka að tala um fleiri framkvæmdir. Við erum að tala um skýrari áætlanir þannig það er ýmislegt sem að hefur breyst frá 2019. En ég held að aðalatriðið sé það að við séum að ná framtíðarsýn fyrir höfuðborgarsvæðið sem að stenst samanburð við borgirnar í löndunum í kringum okkur,“ segir innviðaráðherra.

Spurð út í aukið fjármagn sem þyrfti til framkvæmdanna og hvernig því yrði aflað nefnir Svandís félagið Betri samgöngur sem sett var á laggirnar á sínum tíma á þinginu með sérstökum lögum.

„Þar eru tilteknar og ákveðnar heimildir fyrir hendi sem að lúta að möguleikum til fjármögnunar. Síðan er aðkoma samgönguáætlanirnar þarna líka til þess að styðja við þessa framvindu og það sama gildir auðvitað líka um sérstakar ákvarðanir Alþingis,“ segir Svandís.

„En það er auðvitað lykilatriði að við búum hér við þingræði en þarna er um að ræða ákvarðanir sem að þingið hefur í raun og veru tekið um það á fyrri stigum að búa um þetta með þessum hætti,“ bætir Svandís við.

Alvöru skref inn í framtíðina

Nefnir hún þá að verkefnið verði kynnt í smáatriðum á morgun.

„Kynningin verður á morgun og það verður spennandi að kynna það fyrir samfélaginu öllu að við erum að fara að taka alvöru skref inn í framtíðina fyrir höfuðborgarsvæðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert