Ekki beint „stereótýpan“ fyrir prjónara

Björn Andri Pálsson er með B.Sc. í hátækniverkfræði og prjónari …
Björn Andri Pálsson er með B.Sc. í hátækniverkfræði og prjónari mikill. Ljósmynd/Aðsend

Hinn 24 ára Björn Andri Pálsson gerði sér lítið fyrir og prjónaði peysu með mynd af uppáhaldsleikaranum sínum Brad Pitt úr einni af senum kvikmyndarinnar Fight Club. Björn segir prjónaskapinn veita sér hugarró í daglegu lífi en að sjálfur eigi hann oft erfitt með einbeitingu og því sé gott að dunda við það sem rói hugann.

Björn útskrifaðist með B.Sc. gráðu í hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og starfar nú sem forritari hjá fyrirtækinu Pollard Digital Solutions (PDS). „Ætli ég hafi ekki byrjað að prjóna svona 22 eða 23 ára,“ segir Björn og bætir því við að hann hafi gaman af flottum flíkum. 

Upphaf prjónaskapsins

Brad Pitt peysan í vinnslu.
Brad Pitt peysan í vinnslu. Ljósmynd/Aðsend

Hugmyndin spratt upp af öðrum prjónapeysum sem hann sá á netinu. Hann gat þó ekki hugsað sér að kaupa neina þeirra, þess vegna lagði hann út í óvissuna og ákvað að búa til eina slíka sjálfur. „Ég vissi ekkert hvernig ég ætti að byrja eða hvað ég ætti að gera.“

„Ég fékk einhverja hjálp frá tengdó," segir Björn sem kynnti sér prjónaskap að mestu sjálfur og þá aðallega í gegnum netið, Youtube og prjónaapp. Í appinu gat hann hannað peysuna sem hann vildi prjóna, fundið réttu málin og sniðið. Svo hannaði hann myndina af Prad Pitt og þá kom uppskriftin sem hann gat fylgt. 

Björn sagðist fyrst hafa prjónað peysuna sjálfa en að í ferlinu hafi hann reglulega tekið pásur. Þegar peysan var tilbúin saumaði hann myndina á. Í nokkurn tíma efaðist hann um að ná að klára verkið, en hálfnað verk þá hafið er og lét hann slag standa.

Peysan er nú til sýnis á gínu í versluninni Gallerí Spuna.

Skítugur, snoðaður maður í leit að prjónaráðgjöf

Peysan sem Björn Andri prjónaði er nú til sýnis í …
Peysan sem Björn Andri prjónaði er nú til sýnis í versluninni Gallerí Spuna. Ljósmynd/Aðsend

Það fer ekki á milli mála að Björn er atorkusamur. Hann segist eiga fjöldann allan af áhugamálum þ.á.m snjóbretti, smíði og bíla. Á meðan Brad Pitt peysan var í vinnslu gerði Björn hlé á henni til að prjóna sér lambúshettu sem hann notaði í fjallinu þegar hann fór á bretti.

Björn segir það gamansamt atvik þegar hann slysaðist inn í Gallerí Spuna í Hamraborg.

Áður en hann kom í verslunina hafði hann varið deginum inni í bílskúr að gera við krossara. Starfsmönnum verslunarinnar hafi brugðið eilítið þegar þessi grútskítugi, snoðaði maður gekk inn um dyrnar í leit að garni og ráðgjöf.

Framhaldið

Eins og er prjónar Björn sér til skemmtunar. Hugmyndirnar halda áfram að spretta upp og næst sér hann fyrir sér að prjóna kjól með drekamynstri fyrir kærustuna. En hann myndi ekki nenna að prjóna nema eitthvað listrænt felist í því. „Ég vil hafa öðruvísi element.“

Í náinni framtíð stefnir hann á mastersnám og vonandi mun hann halda prjónunum áfram á lofti.  

Björn vill prjóna eitthvað sem er öðruvísi og vill helst …
Björn vill prjóna eitthvað sem er öðruvísi og vill helst að flókin mynstur eða myndir prýði flíkina. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert