Ekki mikill munur á notkun fyrir lokunina

Starfsmaður Veitna við störf í morgun.
Starfsmaður Veitna við störf í morgun. Ljósmynd/Veitur

Það var örlítill munur á notkun heita vatnsins áður en það var tekið af stórum hluta höfuðborgarsvæðisins klukkan 22 í gærkvöld.

Þetta segir Rún Ingvarsdóttir, samskiptastjóri hjá Veitum, í samtali við mbl.is en heita vatnið var tekið af öllum Hafnarfirði, Kópavogi, Álftanesi, Garðabæ, Norðlingaholti, Breiðholti, Hólmsheiði, Almannadal og Norðlingaholti í gærkvöld.

„Það var ekki mikill munur á heitavatnsnotkun fyrir klukkan 22 í gærkvöld og enginn sjáanlegur munur var á rafmagnsnotkun,“ segir Rún.

Rún sagði við mbl.is fyrr í morgun að verkinu sem staðið hefur yfir í alla nótt miði vel áfram en stefnt er á að hleypa vatninu á aftur á morgun og að fullur þrýstingur verði kominn á kerfið um hádegisbilið.

Í gærkvöld hófst vinna við að tæma vatnið af suðuræð til að hægt verði að tengja nýju lögnina. Tæmingin tók nokkrar klukkustundir og þá hófst vinna á fimm ólíkum stöðum í kerfinu.

Á vef Veitna segir markmiðið sé að auka flutningsgetu hitaveitunnar til að allir íbúar á svæðinu hafi nauðsynlega innviði og lífsgæði til framtíðar.  

Samskiptastjóri Veitna hvetur fólk til að fylgjast með framgangi viðgerðanna á vef Veitna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert