Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hyggst leggja niður Fjarskiptasjóð þegar úthlutun vegna ljósleiðaravæðingar lýkur á þessu ári. Fjarskiptaverkefni fari þá undir Fjarskiptastofu og það ráðuneyti sem sér um fjarskiptamál.
„Fjarskiptasjóð var komið á laggirnar 2006 og átti að hafa gildistíma til 2011. Hann hafði ákveðin verkefni um uppbyggingu á sviði fjarskiptamála og ríkisstjórnin hefur nýtt fjarskiptasjóð til þess að fara í gríðarlega ljósleiðarauppbyggingu í átaksverkefninu Ísland ljóstengt,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í samtali við mbl.is.
„Síðan hefur margt gerst og ég tek ákvörðun með þá fjármuni sem koma úr tíðniúthlutun að reyna að klára ljósleiðaravæðinguna á smáum þéttbýlisstöðum og hef boðið sveitarfélögum til samnings að styðja þau í að klára uppbyggingu fyrir þá sem hafa kannski orðið út undan í þessari uppbyggingu.
Sú úthlutun mun klárast á þessu ári og þá tel ég ekki þörf á sjóðnum, tel rétt að leggja hann niður. Tilfallandi verkefni um uppbyggingu fjarskipta og áframhaldandi sókn getur farið fram hjá Fjarskiptastofu og ráðuneyti sem fer með fjarskiptamál.“