Framboð rekið með sölu ljótra derhúfa

Sigríður Andersen segir að sú staðreynd að forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur skuldi enn peninga sé áminning um það hvernig ríkissjóður hafi farið undir stjórn hennar sem forsætisráðherra.

Fréttir voru fluttar af því í liðinni viku að enn stæði yfir söfnun til þess að greiða upp skuldir sem stofnað var til í tengslum við forsetaframboð Katrínar í apríl og maí síðastliðnum.

Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála sem aðgengilegur er á mbl.is og öllum helstu streymis- og hlaðvarpsveitum. Þar mætir Stefán Pálsson sagnfræðingur einnig til leiks og ræða þau stjórnmálastaf og fjármögnun þess.

Orðaskiptin þar um má sjá í spilaranum hér að ofan en einnig eru þau rakin í textanum hér að neðan.

„Hún er líka að auglýsa núna eftir peningum til að loka gatinu,“ segir Sigríður.

Og Stefán Pálsson bætir við:

„Já, sem mér finnst fínt. Menn voru með miklar samsæriskenningar á netinu um að það væri verið að moka í þetta framboð með kvótapeningum og ég veit ekki hvað og hvað. Svo kom náttúrulega í ljós að eins og með stjórnmálastarf upp til hópa er rekið með því að selja fólki ljótar derhúfur, og kaffisjóður og penna.“

Hver var hugmyndin með framboðinu?

Spyr Sigríður hann þá spurningar út frá þessu:

„Segðu mér þá, hver var samt hugmyndin með framboðinu. Var hugmyndin að hefði hún náð kjöri að þá hefði verið farið eftir á að herja á fyrirtæki og einstaklinga til þess að loka gatinu?“

Og hann svarar:

„Ég held að við sem höfum staðið í kosningum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar höfum við rekið okkur á að það var lagt upp með mjög fínt plan með fjáröflun og eyðsluramma og svo fer einhver kosningastjóri á taugum í síðustu vikunni og ákveður að prenta fleiri penna eða splæsa í fleiri auglýsingar.“

Sigríður er ekki alveg sammála þessu:

„Mér fannst þessi frétt frekar til marks um staðfseting á stjórnarháttum frambjóðandans sem skiur ríkissjóð eftir með hundraða milljarða halla og að menn fjármagni skuldirnar eftir á.“

Bókhaldið verður gert opinbert

En Stefán er ósammála þessu mati á framgöngu flokkssystur sinnar:

„Ég held að það sé bara mjög fínt að þegar vill nú til að við erum með ansi stíf lög um fjármál í tengslum við kosningar að við munum sjá bókhaldið hjá þessum frambjóðendum.“

Veistu hversu stór hola þetta er sem þau eru að moka í?

„Nei, og ég held að hún sé ekki neitt ógnarstór,“ svarar Stefán.

En er þetta ekki eitthvað sem frambjóðendur verða sjálfir að borga, hálaunamenn til áratuga?

Og hann bregast að nýju við:

„Auðvitað endar þetta á því. Ég ætla rétt að treysta því að hún fari ekki að setja kennitöluna í lögbirtingarblaðið út af einhverjum hundrað þúsund köllum til þess að klára leigu á einhverri kosningaskrifstofu og kleinukaupum,“ segir Stefán.

Fólk gæti að sér í framboðsútgjöldum

Og Sigríður bætir við:

„Vonandi ekki. En mér fannst þessi frétt samt vekja athygli. Þetta er vonandi áminning til þeirra sem eru í framboði að reisa sér ekki hurðarás um öxl í þessum efnum. Og kannski líka ábending um það hvernig þróunin hefur verið hérna á Íslandi. Hún hefur verið mjög hröð. Hversu mikið menn eru farnir að velta í svona kosningabaráttu.“

Og þar er Stefán loks sammála Sigríði.

„Takið líka eftir kúltúrmuninum, við erum með í hverri viku fréttir af því í Bandaríkjunum að þessi og þessi frambjóðandi hafi náð að safna svona miklum peningum.“

Fjársöfnun hluti af leiknum

Og hún bætir við:

„Það er bara sigur í sjálfu sér.“

„Já þetta eru bara íþróttafréttir. Þetta er eins og að fá hæstu verðlaunafjárhæðina í golfinu,“ útskýrir Stefán.

„Það er ekki langt í að þetta verði svona hérna,“ segir Sigríður.

„Hérna á Íslandi hefur náttúrulega kosningar og kosningabarátta stjórnmálahreyfinga, hefur alltaf kostað en það hefur alltaf þótt pínu dónalegt að tala um það hvernig þessara peninga er aflað og jafnvel þótt bara best að pukrast með það. Þannig að mér finnst það bara heiðarlegt og gott,“ segir Stefán Pálsson að endingu.

Stefán Pálsson og Sigríður Andersen eru gestir Stefáns Einars í Spursmálum og ræða þar fréttir vikunnar. Viðtalið við þau má sjá og heyra í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka