Gekk berserksgang inni á veitingahúsi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í dag.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skjalafals og berserksgangur var á meðal þeirra verkefna sem lentu á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag en í dagbók lögreglu segir að hún hafi sinnt 93 verkefnum milli kl. 5.00 og 17.00.

Lögreglan fjarlægði m.a. skráningarmerki af þremur ökutækjum en ökumenn þeirra eru grunaðir um skjalafals. Allar bifreiðarnar voru á röngum númerum.

Þá var nokkuð mikið um önnur umferðartengd brot en 16 ökumenn voru sektaðir fyrir of hraðan akstur og einn fyrir að aka bíl á nagladekkjum.

„Ökumaðurinn reyndi að nota allar bestu afsakanirnar í bransanum en lögreglumennirnir á vettvangi eru ekki fæddir í gær og veittu ökumanninum engan afslátt,“ segir í dagbókinni.

Gekk berserksgang á veitingastað

Þá barst lögreglunni talsvert af tilkynningum vegna annarlegs ástands þar sem einstaklingar voru ýmist sofandi eða til ama inni á heimilum, í sameign eða hjá fyrirtækjum. Engin var handtekin í þessum tilvikum því tiltal dugði til.

Lögreglan handtók hinsvegar einstakling sem gekk berserksgang inni á veitingahúsi og sefur hann nú í fangaklefa þar til runnið er af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert