Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, segist að sjálfsögðu vilja sjá afreksíþróttir og íþróttahreyfinguna fullfjármagnaða. Mikil vinna sé nú hafin til þess að leggja til aðgerðir til þess að efla afreksíþróttastarf.
Framkvæmdastjóri ÍSÍ, fyrrverandi forseti Íslands og formaður KKÍ eru meðal þeirra sem hafa bent á mikla fjárþörf til íþróttamála á Íslandi en afrekssjóður ÍSÍ fékk tæpar 400 milljónir frá ríkinu í ár. Framkvæmdastjóri ÍSÍ hefur sagt nauðsynlegt að þrefalda upphæðina.
„Við höfum verið að vinna með íþróttahreyfingunni að því að, í rauninni, stokka upp alla umgjörð afreksíþrótta. Við fengum Véstein Hafsteinsson, sem að hefur verið bæði í vinnu hjá stjórnvöldum og íþróttahreyfingunni sem afreksstjóri og svo við að leiða vinnu við að móta aðgerðir til þess að efla afreksíþróttastarf. Ég er algjörlega sammála því að við þurfum að gera miklu, miklu betur þegar kemur að afreksíþróttunum,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is.
Tillögur um aðgerðir á sviði afreksíþrótta hafi verið kynntar í vor og í framhaldinu hafi þverpólitískur hópur verið stofnaður um málefnið með markmiðið að skila heildstæðri innleiðingaráætlun á tillögunum.
„Tillögum sem fela í raun miklu meira í sér heldur en eingöngu eflingu á afrekssjóði. Það eru líka stuðningur við yngri landslið, yngri íþróttamenn, uppsetning sérstakrar afreksmiðstöðvar og fleira og fleira. Þannig að þessar heildstæðu tillögur, þær munu kosta fjármagn en við erum að gera ráð fyrir því, í fjárlagafrumvarpi næsta árs, að geta mætt einhverjum hluta af því.
Hins vegar mun það velta svolítið á tímaáætlun og innleiðingarvinnunni, sem að ætlunin er að fæðist núna á næstu mánuðum, og verði lögð fyrir Alþingi sem þingsályktunartillaga. Þá verður hægt að teikna nákvæmlega upp fjáraukninguna sem þarf og yfir hvaða tímabil það verður en við þurfum að gera betur,“ segir Ásmundur.
Þá eigum við mikið af öflugu íþróttafólki þrátt fyrir það hversu lítið hafi verið sett í málaflokkinn á undanförnum áratugum.
„Frábærir einstaklingar, frábærar fyrirmyndir og ég er algjörlega sammála afreksstjóra ÍSÍ, Vésteini Hafsteinssyni og íþróttahreyfingunni, við getum gert miklu betur og við eigum að gera það og við eigum að stefna á það. Ef að hægt er að segja um eitthvað að þjóðin standi á bak við það, þá held ég að það sé aukinn stuðningur við íþróttastarfið og íþróttafólkið okkar.“
Hvert viltu sjá fólkið okkar ná, hver væri draumurinn?
„Ég held að draumurinn sé sá að þeir sem að hafi hæfileikana og getuna sjái möguleika í því að leggja fyrir sig áframhaldandi þjálfun og áframhaldandi æfingar með það markmið að vera í fremstu röð. Þá þurfum við að halda fjárhagslega, félagslega, námslega, utan um þessa einstaklinga á fyrstu stigum. Í rauninni bara að þetta sé valkostur, að þetta sé valkostur fyrir ungt og efnilegt íþróttafólk, að vilja fara alla leið en velja ekki aðra braut.
Það er í rauninni það sem þessi afreksstefna snýr að vegna þess að við erum líka, ekki bara að búa til öflugt íþróttafólk, við erum að búa til öfluga leiðtoga, öfluga einstaklinga, sem að fara síðan inn í íslenskt samfélag og við höfum mýmörg dæmi um það. Það er verkefnið, síðan verða aðrir mér fróðari að meta hversu mikið af gullmedalíum eða öðru við getum skilað í hús.“
Hvað væri það lágmark sem þú værir til í að sjá hækkun um hvað varðar fjármögnun málaflokksins?
„Þú ert að tala við fagráðherra málaflokksins sem að sjálfsögðu myndi vilja sjá tillögurnar fullfjármagnaðar en við gerum okkur líka grein fyrir því að stundum þarf að gera hlutina í ákveðnum skrefum og innleiða þá á ákveðnum tíma, það er verkefnið í haust sem fer í það. Að sjálfsögðu vill fagráðherra íþróttamála að við við stígum alla leið í innleiðingu á þessum tillögum og það er spurning með hvaða hætti það gerist, á hvaða tíma. Það er markmiðið að teikna upp í þingsályktun sem verður síðan lögð fyrir Alþingi Íslendinga og þá er okkar verkefni að tryggja fjármögnun til hennar,“ segir Ásmundur að lokum.