Gunnar Sigurjónsson, fyrrverandi sóknarprestur í Digranesprestakalli, er ekki lengur starfsmaður þjóðkirkjunnar heldur hefur hann samið við kirkjuna um starfslok. Ákvörðun um að gera samkomulag um starfslok Gunnars var tekin fyrr á árinu og var hann ekki starfsmaður þegar sr. Guðrún Karls Helgudóttir tók við embætti biskups Íslands.
Þetta staðfestir Heimir Hannesson samskiptastjóri Biskupsstofu.
„Máli hans er lokið af kirkjunnar hálfu og Gunnar Sigurjónsson er ekki lengur starfsmaður þjóðkirkju Íslands,“ segir Heimir.
Auður Björg Jónsdóttir lögmaður Gunnars staðfestir að Gunnar hafi höfðað bótamál. Málið var fellt niður og kirkjan samdi við Gunnar.
Sex konur í Digranessókn stigu fram árið 2022 og sökuðu Gunnar um áreitni og kynbundið ofbeldi. Gunnar var í tíu tilfellum uppvís að einelti, kynbundnu áreiti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi samkvæmt niðurstöðu teymis þjóðkirkjunnar sama ár og var hann í kjölfarið sendur í leyfi frá störfum.
Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, fyrrverandi biskup Íslands, vék Gunnari úr embætti sóknarprests í Digranesprestakalli árið 2023.
Brottvísun Gunnars úr embætti var felld úr gildi eftir að úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar kvað Agnesi vanhæfa til að gegna embætti sínu eftir að skipunartími hennar rann út 1. júlí 2022 og hafði því ekki umboð til að víkja Gunnari úr embættinu.
Gunnar Sigurjónsson rak málið fyrir nefndinni og eftir úrskurð hennar hafði biskup ekki umboð til stjórnsýslulegra athafna, frá og með 1. júlí 2022.
Í október á síðasta ári hugðist Agnes áfrýja úrskurðinum, en virðist síðan hafa snúist hugur. Guðrún tók við af Agnesi sem biskup Íslands 1. júlí.
Heimir segist ekki geta tjáð sig um efnisleg atriði einstakra starfsmanna og þá hvort samið hafi verið við Gunnar um starfslokin eða hvort hann hafi fengið greiðslu eða bætur, en segir að ákvörðun hafi verið tekin fyrr á árinu.
Var hann starfmaður 1. júlí þegar sr. Guðrún Karls Helgudóttir tók við sem biskup?
Nei.
Í viðtali við Heimildina fyrr á árinu kvaðst Agnes ætla að skila skömminni til kirkjuþings. Hún sagðist hafa fengið að finna fyrir því að vera fyrsta konan til að gegna embætti biskups og að hún hefði verið beitt órétti.
Agnes sagði í viðtalinu að eftir niðurstöðu úrskurðarnefndar, sem sé bindandi innan þjóðkirkjunnar, um að hún hafði ekki umboð til að framlengja leyfi Gunnars, þá væri ekkert annað hægt að gera en að fara með málið fyrir dómstóla.
Ekki virðist sem úr því hafi orðið, enda var ákvörðun um starfslok Gunnars tekin þegar hún sat í biskupsstól.
Gunnar höfðaði bótamál gegn þjóðkirkjunni. Auður Björg segir að málið hafi verið fellt niður og samkomulag gert á milli Gunnars og kirkjunnar.
„Hann gerði samkomulag þar sem hann gat vel við unað,“ segir Auður, en að innihald samkomulagsins sé trúnaðarmál.