Lögregla leitar manna eftir rán í Skeifunni fyrr í morgun. Sérsveit var kölluð á vettvang og samkvæmt heimildum mbl.is var maður blóðugur á vettvangi.
Vísir staðhæfir að um rán hafi verið að ræða og að manna sé leitað vegna þess. Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar, segir í samtali við mbl.is að málið sé komið á borð rannsóknardeildar og að tilkynningin hafi borist lögreglunni á slaginu ellefu.
Hann vildi þó ekki staðfesta að um rán væri að ræða eða að manna væri leitað. Þá gat hann ekki tjáð sig nánar um málið að svo stöddu.
Samkvæmt sjónarvotti voru fjórir lögreglubílar á bílaplaninu við verslunina A4. Sjónarvottur sá mann blóðugan og að búið væri að setja umbúðir utan um hönd hans.