Með tvöfalt hærri tekjur en næsti forstjóri

Guðmundur trónir á toppi listans yfir tekjuhæstu forstjórana.
Guðmundur trónir á toppi listans yfir tekjuhæstu forstjórana. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Fetram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, er tekjuhæsti forstjóri landsins samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar. Guðmundur var með liðlega 74 milljónir í mánaðartekjur á síðasta ári. 

Í fyrra var Kerecis selt til danska heilbrigðisfyrirtækisins Coloplast fyrir jafnvirði tæpra 180 milljarða íslenskra króna, en Guðmundur átti stóran hlut í Kerecis.

Á eftir Guðmundi á listanum er Davíð Helgason, stofnandi Unity, með rúmlega 33 milljónir. 

Árni Oddur Þórðarson, fyrrverandi forstjóri Marels, var með rúmar 17,5 milljónir á mánuði og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðargreiningar, með rúmar ellefu. 

Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, var með rúmar níu mílljónir á mánuði og Halldór Benjamín Þorbergsson, fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og forstjóri Heima, var með tæpar níu milljónir í tekjur árið 2023. 

Eldur Ólafsson er forstjóri og stofnandi Amaroq Minerals.
Eldur Ólafsson er forstjóri og stofnandi Amaroq Minerals. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðeins eitt sæti skilur á milli Ástu Sigríðar Fjeldsted, forstjóra Festis, og Finns Oddssonar, forstjóra Haga, en það er Gunnþór Björn ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, með rúmar 5,7 milljónir á mánuði. 

Finnur var líka með rúmar 5,7 milljónir og Ásta með tæpar 5,7 milljónir. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, var með rétt tæpar fimm milljónir og Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Play, var með rétt tæpar fjórar milljónir. 

Greint er frá tekjum 4.000 Íslendinga í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Hægt er að nálgast blaðið hér. Er þar tekið fram að um sé að ræða út­svars­skyld­ar tekj­ur á ár­inu 2023. Þær þurfi ekki að end­ur­spegla föst laun viðkom­andi. Inn í tölunum eru ekki fjármagnstekjur.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert