„Meira og minna“ staðfest að um hlaup sé að ræða

Frá Skaftárhlaupinu 2021.
Frá Skaftárhlaupinu 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eins og er er hlaupið bara að byrja og ekki farið neitt rosalega af stað en við teljum að það sé að fara af stað. Þetta er meiri virkni en bakgrunnsvirkni,“ segir Bjarki Kaldalóns Fri­is, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, í sam­tali við mbl.is um Skaftárhlaup sem virðist vera að hefjast.

Spurður hvort staðfest sé að um hlaup sé að ræða segir Bjarki: „Svona meira og minna en það má reikna með að þetta taki um 10 tíma frá Sveinstindi niður á Þjóðveg.“

Grunur kviknaði í gær

Bjarki segir að fólk á vegum Veðurstofunnar hafi farið á svæðið í gær til að kanna aðstæður því að liturinn á Skaftá hafi bent til þess að hlaup gæti farið að hefjast.

„Þá var talað um að mögulega væri Skaftárhlaup í uppsiglingu og svo vorum við að skoða þetta í dag líka. Rennsli og vatnshæð jókst um fjögur leitið og svo hefur það bara farið upp á við síðan. En það rís ekkert rosalega hratt akkúrat núna en miðið við það sem er venjulegt þá er þetta hratt,“ segir Bjarki og bætir við:

„Við erum kannski að búast við að þetta fari upp fyrir 500 rúmmetra á sekúndu og kannski getur þetta farið upp í 700 rúmmetra.“

Ólíklegt að flæði yfir Þjóðveginn

Þá segir Bjarki að ekki sé viðbúið að hlaupið flæði yfir Þjóðveginn en rennslið þyrfti að nú um 1000 rúmmetrum til þess.

„Það getur aðallega skorið smá í vegi sem liggja meðfram Skaftá uppi á hálendi og þetta getur grafið sig inn á tún og valdið bændum sem eru með dýr úti á túnum vandamálum,“ segir Bjarki og bætir við að mikilvægt sé að fólk á svæðinu hafi hlaupið í huga.

Varar við útilegu á bökkunum

Í tilkynningu um hlaupið frá Veðurstofunni var varað við brennisteinsmengun en Bjarki segir hana fylgja með hlaupvatni.

„Þetta er bara eins og þegar við erum að tala um gos úti á Reykjanesskaga. Ef að maður er nálægt upptökum eða dældum og lægðum í landslaginu getur gas safnast þar saman. Þannig ekki fara að tjalda nálægt bakkanum og svona vesen,“ segir Bjarki. 

Veðurstofan er ekki með neina gasmæla á svæðinu en Bjarki segir að yfirleitt sé brennisteinslykt góður vísir á mengun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert