Prísar sig sæla með viðtökurnar

Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri talar tæpitungulaust og segir Prís munu …
Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri talar tæpitungulaust og segir Prís munu bjóða lægsta verðið. Fyrstu viðtökur hafi farið fram úr vonum. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

„Við erum mjög þakklát fyrir þau viðbrögð sem við höfum fengið og sjáum alveg að fólk er tilbúið að vera í liði með samkeppninni,“ segir Gréta María Grétarsdóttir í samtali við mbl.is, framkvæmdastjóri lágvöruverðsverslunarinnar Príss sem nýlega opnaði dyr sínar með þá yfirlýstu stefnu að þar fengist dagvaran fyrir lægsta verð sem Íslendingum stæði til boða í sínu heimalandi.

Prís er græðlingur af meiði netverslunarinnar Heimkaupa sem nú á fjórtán ára sögu að baki og var stofnuð í því augnamiði að auðvelda viðskiptavinum kaup ýmiss konar sérvöru. Er fram liðu stundir jókst úrvalið og nær nú til flestra vöruflokka og fá viðskiptavinir varninginn heimsendan eins og nafnið gefur til kynna.

„Erum ódýrust og það verður þannig“

Kveður Gréta María starfsfólk Príss hafa lagt nótt við dag í undirbúningi og hafi viðtökurnar staðist allar væntingar, fullt hafi verið út úr dyrum í kjölfar opnunarinnar. „Fólk hefur tekið vel í vöruúrvalið okkar og hefur gaman af að skoða nýtt úrval. Þetta fór fram úr okkar vonum en engu að síður var spennan mikil í aðdragandanum. Allir vilja kaupa góðar vörur á lægra verði og okkar markmið hefur alltaf verið að bæta hag heimilanna með því að lækka matvöruverð á Íslandi,“ segir framkvæmdastjórinn.

Nú er rætt um verðstríð á matvörumarkaði með innkomu Príss, hver er þín tilfinning þar?

„Við erum ódýrust og það verður þannig. Við fylgjumst grannt með samkeppninni og stillum strengina eftir því,“ svarar Gréta María og fellst á það með blaðamanni að ef til vill sé Prís boðberi mestu stórtíðinda á íslenskum matvörumarkaði síðan Bónusfeðgar opnuðu sínar dyr fyrir réttum 35 árum, árið 1989. 

Jón Ásgeir Jóhannesson, sem opnaði Bónus á sínum tíma ásamt föður sínum, er einmitt á meðal fjárfesta í Prís. Er hann það í gegnum fjárfestingafélagið Streng sem er meirihlutaeigandi í Skel, móðurfélagi Orkunnar, sem er svo móðurfélag Príss.

Elska samkeppni og komin til að vera

Gréta María dregur ekki fjöður yfir þá skoðun sína að sér þyki matvöruverð á Íslandi allt of hátt. „Vöruúrvalið okkar er takmarkað sem táknar að við getum haft minni yfirbyggingu í rekstrinum og boðið lægra verð. En hér er allt sem þarf til heimilisins,“ segir viðmælandinn.

Framtíðarsýn Príss að hennar sögn er að geta boðið Íslendingum ódýra matvöru. Opnun fleiri verslana verði tíminn einn að leiða í ljós. „Við lítum auðvitað björtum augum til framtíðar, hér starfar gríðarlega öflugt teymi, við réðum inn töluvert af nýju fólki til að vera með okkur í uppbyggingunni. Við elskum samkeppni og við erum komin til að vera,“ segir Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Príss að lokum um fyrstu skref nýrrar verslunar á íslenskum matvörumarkaði sem ætlar sér að vera ódýrust á einum dýrasta markaði Evrópu – Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert