Segir ályktun VG ekki byggja á staðreyndum

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þeir sem vilja beina spjótum sínum að mér fyrir að standa ekki með þessari stofnun, þeir eru ekki að byggja á staðreyndum,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um stjórnmálaályktun flokkráðsfundar Vinstri grænna. Þar var ákvörðun Bjarna um að frysta tímabundið greiðslur til Palestínuflótta­mannaaðstoðar Sam­einuðu þjóðanna fordæmd.

Ut­an­rík­is­ráðuneytið stöðvaði tíma­bundið greiðslur til stofnunarinnar í janú­ar eft­ir að grun­ur lék á því hvort að starfs­menn á veg­um aðstoðar­inn­ar hafi tekið þátt í hryðju­verka­árás á Ísra­el í októ­ber. Var Bjarni á þeim tíma utanríkisráðherra.

Ályktunin dæmi sig sjálf

„Ísland, eins og öll önnur ríki, taldi ástæðu til þess að láta fara ofan í saumanna á þessum ásökunum og það gerði stofnunin sömuleiðis. Við sögðum þess vegna að við myndum hugsa okkur um áður en við stæðum við næstu greiðslu en á endanum þá gerðum við það eins og yfirgnæfandi meirihluti annarra þjóða,“ segir Bjarni er hann er spurður um ályktunina.

Nefnir hann að það hafi aldrei verið um það að ræða að greiðslur bærust ekki til stofnunarinnar heldur var þeim skilað á umsömdum tíma.

„Þannig að mér finnst þessi ályktun í sjálfu sér, af þessari ástæðu, bara dæma sig sjálf.“

Hugsar um aðra hluti 

Vegur það meira að ályktunin komi frá flokki sem er í ríkisstjórninni frekar en stjórnarandstöðunni?

„Ég lít ekki þannig á. Mér finnst þetta mál bara ekki ná máli og nær engri vigt í mínum huga og ég er bara að hugsa um aðra hluti,“ segir forsætisráðherrann og tekur jafnframt fram að staðreyndir málsins tali fyrir sig.

„Þegar ég var í utanríkisráðuneytinu þá jukum við framlög til þessarar stofnunar, fram að því að þessar ásakanir komu fram. Þá fórum við ofan í sauma á málum og kölluðum eftir skýringum og upplýsingum. Það var brugðist við og þá héldum við áfram greiðslunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert