Segir ekki óeiningu innan ríkisstjórnarinnar

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Dómsmálaráðherra segir ekki meiri óeiningu ríkja innan ríkisstjórnarinnar vegna útlendingamála en svo að hún hafi sammælst um heildarsýn í þeim efnum í febrúar. Hún vilji aðlaga íslenskt lagaumhverfi að því sem þekkist á Norðurlöndum. Alvarlegt sé að svipta fólk alþjóðlegri vernd en allir verði þó að fara eftir íslenskum lögum hér á landi. 

Þetta segir hún í kjölfar orða sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra lét falla um helgina en Guðmundur sagði breytingar á útlendingalöggjöf ekki forgangsatriði. 

„Það er ekki meiri óeining en svo að við sammæltumst um heildarsýn í útlendingamálum í febrúar og höfum verið að vinna eftir henni. Þar sammæltumst við um tuttugu aðgerðir, bæði til þess að fækka hér umsækjendum um vernd, lækka kostnað, ná málsmeðferðartíma niður en einnig að tryggja það að þeir sem að hér fá vernd í íslensku samfélagi, að þeir aðlagist vel og við tökum vel á móti fólki. Við erum að vinna eftir þessu plani,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.

„Ein fyrsta aðgerðin, og sú nauðsynlegasta að mínu mati, það var að ná í gegnum þingið breytingu á útlendingalögum og við náðum umfangsmiklum breytingum í gegn á útlendingalögum í júní á þessu ári. Sem er forsenda þess að heildarsýnin geti gengið upp, þannig ég var afskaplega ánægð með það.“

Þá þurfi málaflokkurinn að vera í sífelldri endurskoðun enda síkvikur. Aðlaga þurfi íslenskt kerfi að því sem þekkist á Norðurlöndunum. 

Alvarlegt að svipta fólk vernd en vill að það sé möguleiki

Það hefur verið mikið í umræðunni, spurningum beint til mín og okkar í stjórnmálum, hvernig standi á því að einstaklingar sem hér verða sekir um alvarlega glæpi geti verið hér í landinu áfram eða þeir njóti hér verndar. Ég hef sagt það og boðað það á eldhúsdegi að ég myndi vilja sjá þá breytingu í útlendingalögum að það væri hægt að svipta fólk vernd sinni ef það gerist sekt um alvarlegt brot. Þetta er eitt af því sem ég hef verið að boða í breytingum á útlendingalöggjöfinni, sem og annað sem við erum að skoða í ráðuneytinu til þess að aðlaga löggjöf okkar við Norðurlöndin,“ segir Guðrún. 

Spurð hvernig mál standi varðandi skoðun ráðuneytisins á ráðum sem hægt sé að grípa til, brjóti einstaklingur sem hlotið hefur alþjóðlega vernd, af sér á stórfelldan máta segist hún treysta á stjórnsýslustofnanir sem vinni að þessum málaflokkum. 

„Nú er það þannig að við erum hér með stjórnsýslustofnanir sem að taka fyrir ákvarðanir um það hvort að viðkomandi einstaklingur eigi að fá vernd í íslensku samfélagi eða ekki. Ég ber traust til þeirra stofnanna. Ef að einstaklingur hefur fengið vernd hér í íslensku samfélagi þá er sannarlega ástæða fyrir því. Þess vegna er það mjög alvarlegur gjörningur ef við ætlum að afturkalla vernd hjá einstaklingi, það ber að vanda það mjög vel ef við ætlum að fara þá leið,“ segir Guðrún.

Alvarlegt sé að taka vernd af manneskju en mikilvægt sé þó að allir fylgi lögum. Litið sé nú til Norðurlandanna hjá ráðuneytinu og skoðað hvernig skuli taka á málum sem þessum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert