Sérstakt ef Landsvirkjun fær húsnæðið

Athafnamaðurinn Hilmar Ingimundarson vill fá íþróttamiðstöð fyrir jaðaríþróttir í Reykjavík.
Athafnamaðurinn Hilmar Ingimundarson vill fá íþróttamiðstöð fyrir jaðaríþróttir í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Athafnamaðurinn Hilmar Ingimundarson lagði fram tilboð í síðustu viku upp á 420 milljónir króna í Toppstöðina í Elliðaárdal, húsnæði sem nú er í eigu Reykjavíkurborgar. Tilboðið var lagt fram af Hilmari fyrir hönd óskráð félags sem hefur komið að uppbyggingu Toppstöðvarinnar. 

Tilboðið var þó næsthæsta tilboðið þar sem Landsvirkjun bauð 725 milljónir króna. 

Hilmar hefur unnið að því í meira en fimm ár að finna framtíðarhúsnæði fyrir Klifurfélag Reykjavíkur og önnur jaðaríþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu.

Árið 2020 birtist skýrsla sem Hilmar segir að hafi verið unninn í samstarfi við Reykjavíkurborg. Hann nefnir að vinnan hafi miðast að því að mæta þörfum Klifurfélags Reykjavíkur og annarra íþróttafélaga sem standa frammi fyrir húsnæðisvanda. 

Yfir þrjátíu fundir með borginni 

„Þetta er allt sniðið að þörfum menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og íþróttabandalagi Reykjavíkur sem að hefur verið að leita að húsnæði fyrir íþróttafélög innan Reykjavíkur sem eru annað hvort húsnæðislaus eða eru á hrakhólunum alveg eins og Klifurfélag Reykjavíkur og Brettafélag Reykjavíkur. Þetta eru félög sem að lenda reglulega á götunni ásamt tíu öðrum félögum sem þeir hafa verið að nefna í þessari skýrslu,“ segir Hilmar. 

Hilmar lýsir því að samstarfið með Reykjavíkurborg hafi hafist árið 2020 þegar unnið var að íþróttastefnu til 2030.

„Við höfum setið yfir þrjátíu fundi með Reykjavíkurborg þar sem framtíð jaðaríþrótta í borginni var rædd. Arkitektar og verkfræðistofur hafa tekið þátt í að þróa hugmyndir um að skapa útivistar- og almenningsmiðstöð sem myndi þjóna þessum félögum,“ segir Hilmar. 

Teikningar af íþróttamiðstöðinni sem Hilmar og hans hópur vill fá.
Teikningar af íþróttamiðstöðinni sem Hilmar og hans hópur vill fá. Ljósmynd/Aðsend

Kæmi verulega á óvart 

„Ég get alveg sagt þér það að það kemur manni verulega á óvart að Landsvirkjun, sem er fyrrverandi eigandi af þessu húsi og gaf Reykjavíkurborg þetta hús árið 2008, að þeir séu allt í einu komnir inn í þessa umræðu og inn í þetta ferli. Mér finnst mjög áhugavert að vera fylgjast með því,“ segir Hilmar.

„Öll þessi vinna sem við höfum farið í og byggt upp með menningar- og íþróttaráði, sem að sér um að úthluta húsnæði til íþróttanna og er búin að vera á þessari vegferð og með allar þessar kynningar innandyra og fleira. Þannig ef að Landsvirkjun stígur þarna inn þá finnst mér það mjög sérstakt,“ segir Hilmar. 

Elliðaárdalurinn náttúruperla

Að sögn Hilmars finnst honum einnig sérstakt ef það verður breyting á Elliðaárdalnum sem hann segir vera náttúruperlu og því mikilvægt að sýna honum ásýnd. 

„Það er sérstakt að það eigi að breyta dalnum, sem er með sérstaka stefnumótun um að vera ekki með skrifstofubyggingar. Það er þó bara mín skoðun,“ segir Hilmar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert