Smiðshúsamafían hleypur fyrir Píeta

Smiðshúsamafían er fjölskylda af Álftanesi sem tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu …
Smiðshúsamafían er fjölskylda af Álftanesi sem tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og styrkir Píetasamtökin með þátttöku sinni. Ljósmynd/Aðsend

Smiðshúsamafían af Álftanesi tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu næstkomandi laugardag og styrkir Píetasamtökin með þátttöku sinni. Guðný Erla Sigurjónsdóttir, 23 ára, segir aldursbilið í hópnum vera 20-62 ára.

Smiðshúsamafían samanstendur af föður Guðnýjar, föðursystrum, afkomendum og mökum. Af þeim 11 sem taka þátt ætla flestir að hlaupa 10 km nema bróðir hennar, Tryggvi Már, sem hleypur 21 km enda hefur hann meiri reynslu af hlaupum en flestir í fjölskyldunni. 

„Afi er 96 ára og er ekki að hlaupa en verður með á hliðarlínunni,“ svarar Guðný glöð í bragði þegar hún er spurð hvort sá sem byggði Smiðshús fyrir 60 árum, arkitektinn afi hennar, ætli einnig að hlaupa. 

Píeta snertir hjartað

Guðný segir fjölskylduna alla mjög nána og hafi hún alltaf staðið saman. „Fyrir rúmum tveimur árum varð missir í minni fjölskyldu,“ bætir hún við en fjölskyldan varð fyrir því áfalli að frænka Guðnýjar fór skyndilega.

Á þessum erfiða tíma tóku Píetasamtökin þeim opnum örmum. Á heimasíðu Píeta kemur fram að samtökin bjóði upp á meðferðarstarf fyrir fólk með alvarlegar sjálfsvígshugsanir eða í sjálfsvígshættu, ásamt stuðningsúrræðum fyrir aðstandendur og fólk með sálrænan sársauka.

Guðný segir að aðstoðin frá Píeta hafi verið mikil á þessum erfiða tíma í fjölskyldunni og að þau hafi til að mynda fengið góða ráðgjöf sem aðstandendur.

„Ótrúlega flott samtök,“ segir hún og bætir við að fleiri sem til þekkja hlaupi fyrir Píeta til að mynda vinkona hennar. En hún man hve erfitt áfallið var fyrir fjölskyldu Guðnýjar og hve mikla hjálp var að fá frá samtökunum. 

Guðný Erla Sigurjónsdóttir segir fjölskylduna afar ánægða með þá upphæð …
Guðný Erla Sigurjónsdóttir segir fjölskylduna afar ánægða með þá upphæð sem safnast hefur og að hún haldi áfram að hvetja fólk til að styrkja málefnið. Ljósmynd/Aðsend

Fram úr björtustu vonum

Smiðshúsamafían hefur ekki gert neitt af þessum toga áður þótt hún hafi brallað margt saman í gegnum tíðina. Þau ætla fyrst og fremst að njóta þess að taka þátt og hver hleypur eða gengur á sínum hraða. 

Upphaflega settu þau ekkert söfnunarmarkmið fyrir hlaupið en nú þegar hafa safnast rúmlega 100.000 krónur. Guðný segir upphæðina hafa farið fram úr björtustu vonum. 

Fjölskyldan heldur áfram að hvetja fólk til að styrkja málefnið. 

Á síðunni hlaupastyrkur.is má styrkja Píetasamtökin og önnur góð málefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert