Sóunin eigi við um „skriffæri og annað slíkt“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segist fagna nýju frumvarpi barna- og menntamálaráðherra um þróun námsgagna. Frumvarpið mælir meðal annars fyrir því að námsgögn verði gjaldfrjáls í framhaldsskólum fyrir fólk undir 18 ára, að fullu 1. janúar 2029. 

Fyrr í mánuðinum gagnrýndi Áslaug sóun á námsgögnum í grunnskólum og sagði kennara kvarta yfir því að virðing fyrir skóladóti hafi dalað eftir að það varð gjaldfrjálst. 

„Við erum að verja fjár­mun­um til allra í staðinn fyr­ir að beina þeim til þeirra sem að þurfa á þeim að halda,” sagði Áslaug Arna í samtali við Morgunblaðið og benti á að fjár­magn rík­is og sveit­ar­fé­laga væri nýtt með óskil­virk­um hætti. 

Fagnar frumvarpinu

Spurð hvernig henni lítist á nýja frumvarpið, sem ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að leggja fyrir Alþingi, meðal annars með tilliti til gjaldfrjálsra námsgagna segir hún það skipta miklu fyrir þróun námsgagna.

„Frumvarpið er auðvitað ný heildarlög sem skipta gríðarlega miklu máli um þróun námsgagna, um fjölbreyttari námsgögn, að fleiri aðilar komi að gerð námsgagna og svo framvegis og eru mikil heillaskref fyrir menntakerfið.

Í þessari umræðu verður að gera skýrari greinarmun á námsgögnum og það sem kannski þarf að gera að mínu mati í frumvarpinu er að skýra aðeins um hvaða námsgögn er rætt og hver skilgreiningin er, þó hún verði aldrei tæmandi talin. Enda er stöðug þróun á því hvaða tól sé best að nýta í menntakerfinu til að ná sem bestum árangri,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is.

„Ég fagna frumvarpinu. Það sem liggur mest á er auðvitað að kennarar hafi aðgang að betri og fjölbreyttari námsgögnum og ég vona að þetta ýti undir það. Það sem kennarar kalla líka eftir er að þeir geti með auðveldari hætti deilt á milli sín námsgögnum sem verið er að þróa innan skóla.“

Má alltaf endurskoða forgangsröðun fjármuna til hátekjufólks

Þá verði hún vör við að hérlend menntatæknifyrirtæki fái ekki nægilega góðan aðgang að menntakerfinu og gefist gjarnan upp á því að selja lausnirnar sínar hér á landi. Það sé ótækt en lausnirnar ættu að vera aðgengilegar fyrir kennara. 

„Varðandi forgangsröðun fjármuna, þá hef ég reynt að beina sjónum að því að það skipti öllu máli að við náum árangri í menntakerfinu, að fjármunum sé varið vel til þess að börnin okkar nái meiri árangri. Mér fannst alveg rétt að benda á það sem ég hef heyrt frá mörgum kennurum, og ekki síst eftir að ég vakti athygli á því, þá hef ég fengið gríðarleg viðbrögð frá kennurum og sveitarfélögum um ákveðna sóun en það á ekki við um þau gögn sem nýtt eru til þess að læra, bækur eða menntatækni, heldur frekar skriffæri og annað slíkt,“ segir Áslaug. 

Hún bendir á að umræða um skólagögn megi ekki skyggja á umræðu um árangur menntakerfisins. 

„En það sem ég vildi bara benda á með þessu er að að mínu viti finnst mér forgangsröðun fjármuna til hátekjufólks alltaf mega endurskoða. Á sama tíma erum við öll sammála um að við munum alltaf styðja þá sem þurfa á því að halda og tryggja jöfn tækifæri í menntakerfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert