Þreföld aðsókn í Laugardalinn

Laugardalslaugin var vel sótt í morgun er skórinn kreppti í …
Laugardalslaugin var vel sótt í morgun er skórinn kreppti í heitavatnsaðföngum höfuðborgarbúa og var aðsóknin þreföld miðað við meðalmorgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Aðsóknin var þreföld hjá okkur, svona gróflega áætlað, í morgun miðað við meðaldag svo við tökum alveg eftir þessu,“ segir Drífa Magnúsdóttir forstöðumaður Laugardalslaugarinnar í samtali við mbl.is um gestafjöldann í morgun í heitavatnsleysinu og bætir því við að nokkuð hafi verið um að fólk hafi heimsótt þessa ástsælu orkuuppsprettu Reykvíkinga eingöngu til þess að bregða sér í sturtu.

„Fólk greiðir bara sinn aðgang og fær auðvitað aðgang að því sem það þarf að nota,“ segir forstöðumaðurinn og bætir því við að mikið sé hringt til að spyrja hvort laugin sé opin. „Veðrið er þannig að ég býst við að hér verði þétt setið á öllum stöðum í dag,“ segir Drífa.

Sturtur á vinnustöðum nýttar

„Það er svolítið óheppilegt að við vorum fyrir löngu síðan búin að skipuleggja viðhaldslokun á Vesturbæjarlaug svo hún er lokuð en hefði getað verið opin, þar er heitt vatn,“ segir Drífa og telur upp þær sundlaugar sem opnar eru á vegum borgarinnar, Sundhöllina, Laugardalinn, Dalslaug í Úlfarsárdal, Grafarvogslaug og Klébergslaug.

Drífa Magnúsdóttir er nýr forstöðumaður Laugardalslaugarinnar en starfaði áður í …
Drífa Magnúsdóttir er nýr forstöðumaður Laugardalslaugarinnar en starfaði áður í hinni fornfrægu Sundhöll sem gekk í endurnýjun lífdaganna við opnun útilaugar í desember 2017. Engu að síður sæki ákveðinn gestahópur af sannri vanafestu aðeins gömlu laugina og gömlu pottana. Ljósmynd/Aðsend

„Ég geri líka ráð fyrir að mikið álag sé á sturtum á ýmsum vinnustöðum,“ segir forstöðumaðurinn glettnislega nú er skórinn kreppir í aðföngum heits vatns á höfuðborgarsvæðinu – þá sjaldan.

Drífa starfaði áður í Sundhöllinni, þeirri fornfrægu laug Reykvíkinga í húsi Guðjóns húsameistara Samúelssonar, og segir aðsóknina hafa stóraukist þar eftir að útilaugin opnaði árið 2017. Vanafestan sé þó alltaf til staðar hjá sumum, „það er stór kúnnahópur sem vill ekki sjá útilaugina og fer bara í innilaugina og gömlu pottana á svölunum, yfir þeim er ákveðinn sjarmi og margir vilja halda í hann og það verður alveg svoleiðis, en aukin notkun laugarinnar kom eftir að laugin úti opnaði, fólk vill sitja úti í sólbaði“, segir Drífa að skilnaði af lauginni sem brátt fagnar níu áratugum í rekstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert