Skólahundurinn Trausti er sérþjálfaður til að styðja við og starfa með skólabörnum og hefur á síðustu árum notið mikilla vinsælda meðal nemenda í Fossvogsskóla. Hann hefur nú til viðbótar fengið skólavist í Langholtsskóla í vetur og mætir í skólann á mánudaginn.
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur heimilaði á dögunum að hundurinn mætti koma í Langholtsskóla einn dag í viku og dvelja þar í sex stundir í senn með börnunum í afmörkuðu rými undir stjórn Gunnars Jarls Jónssonar, kennara við skólann.
Gunnar Jarl og eiginkona hans, Helga Helgadóttir deildarstjóri stoðþjónustu í Fossvogsskóla, eru eigendur Trausta og hafa alið hann upp og þjálfað til að vera með börnum í skólastarfi. Verkefnið heitir Hundur í skóla – aukin vellíðan og hefur reynst afar vel að sögn Gunnars.
Trausti skapar bæði vellíðan og hvatningu meðal barnanna með nærveru sinni, þau lesa fyrir hann, skrifa niður verkefni eða þrautir sem þau leggja fyrir Trausta. Það eflir sjálfstraust þeirra þegar þau gefa honum t.d. skipanir um að fella keilur sem hann framkvæmir og veita honum síðan verðlaun þegar hann leysir úr verkefnunum að sögn Gunnars.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag