Útlendingamál verði að vera forgangsmál

Þing fer senn að hefjast á ný og segir forsætisráðherra …
Þing fer senn að hefjast á ný og segir forsætisráðherra að útlendingamál verði að vera í forgangi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segist skilja sjónarmið Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra og formanns VG um að útlendingamál ættu ekki að vera í forgangi ríkisstjórnarinnar þegar þing hefst á ný. Segir hann þó að málin ættu að vera eitt af helstu forgangsmálum, rétt eins og víða um Evrópu.

„Það er út af fyrir sig rétt að við tókum í fyrra og aftur á þessu vorþingi mjög stórar ákvarðanir í útlendingamálum. En í mínum huga breytir það ekki þeirri staðreynd að við þurfum áfram að halda vöku okkar. Það eru enn þá áskoranir varðandi komur hælisleitenda til landsins og stjórnvöld verða að taka stjórn á því hvaða ferli tekur við við lendingu á Keflavíkurflugvelli,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

„Dómsmálaráðherra hefur verið að vekja athygli á þessu að við gætum þurft að vera með þéttara utan umhald og skýrara verklag strax við komu til landsins. Ég get tekið undir það,“ bætir hann við. 

Þurfum að halda vöku okkar

Forsætisráðherrann segir þó Guðmund Inga hafa nokkuð til síns máls. Nýlega sé búið að taka margar stórar ákvarðanir í málaflokknum.

„En í mínum huga er staðreynd málsins sú að málaflokkurinn hælisleitendur er enn þá að kosta okkur of mikið í stjórnkerfinu og er of frekur á fjárlögum og við þurfum áfram að halda vöku okkar.“

Nefnir þá Bjarni að það geti ekki verið þannig að hælisleitendamál séu helsta umræðuefni stjórnmála um alla Evrópu en séu komin af dagskrá á Íslandi.

„Það er útilokað. Þau hljóta að eiga að vera áfram til umræðu og eitt af helstu forgangsmálum þessarar ríkisstjórnar eins og á við á Ítalíu, í Þýskalandi, á Spáni, Bretlandi og á Norðurlöndunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert