„Stutta svarið er já, við tökum á þessu innan ramma ferðamálastefnu og höfum þar ýmis ráð til þess að fást við þetta. En ég er sammála ferðamálastjóra að það verður að vera betri umgjörð,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, umræðuna sem myndast hefur um bílastæðagjöld við náttúruperlur landsins.
Í samtali við Vísi í gær sagði Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri að sprenging hefur orðið á bílastæðagjöldum við ýmis náttúruperlur landsins og að stjórnleysi ríki í málaflokknum.
Í samtali við mbl.is segir Lilja að Alþingi sé nú búið að samþykkja fyrstu ferðamálastefnu til lengri tíma og að farið verði af stað með frekari stýringu á umgjörð í kringum náttúruperlur.
Spurð hvort henni hafi fundist bílastæðagjöld hafi farið langt fram úr hófi segist Lilja þurfa að kynna sér það betur.
„Ég þarf bæði að sjá hvar þetta er og taka þetta saman svo ég geti svarað á upplýstan hátt.“
Vill hún þó halda því til haga að framkvæmdir við ferðamannastaði hafa gengið mjög vel í gegnum framkvæmdasjóð ferðamála.
„Við erum búin að sjá mjög flotta uppbyggingu og mér finnst ekkert óeðlileg að þegar þú ert að njóta einhverra gæða sem búið er að fjárfesta í að þú greiðir fyrir það. En við þurfum að vera meðvituð um það hvernig við ætlum að gera þetta og hvort að við eigum að setja á innviða-náttúrugjald og þú getir þá ferðast um án þess að vera að greiða á hvaða stað sem er,“ segir Lilja og bætir við.
„En þetta er bara liður í ferðamálastefnu sem var samþykkt samhljóða á Alþingi og ég hef fullt rými til þess að skoða þetta undir henni.“