„Verkinu miðar vel áfram“

Starfsmenn Veitna við störf í nótt.
Starfsmenn Veitna við störf í nótt. Ljósmynd/Veitur

„Verkinu miðar vel áfram og er á áætlun,“ segir Rún Ingvarsdóttir, samskiptastjóri Veitna, í samtali við mbl.is en heitt vatn var tekið af af stórum hluta höfuðborgarsvæðisins klukkan 22 í gærkvöld.

Rún segir að suðuræð hafi verið lokað á miðnætti og þá hafi hafist tæming á lögninni sem er að klárast. Hún segir fólk hafi almennt verið vel undirbúið og að lítið hafi verið hringt í Veitur í gærkvöldi og í nótt.

Vegna tengingar á nýrri flutningsæð hitaveitu suðuræðar 2 var lokað fyrir heita vatnið í öllum Hafnarfirði, Garðabæ, Álftanesi, Kópavogi, Breiðholti, Hólmsheiði, Almannadal og Norðlingaholti í gærkvöld en stefnt er á að hleypa vatninu á aftur á morgun og að fullur þrýstingur verði kominn á kerfið um hádegisbilið.

Í tilkynningu frá Veitum segir að mikilvægt að íbúar hafi skrúfað fyrir krana til að koma í veg fyrir slys og tjón þegar vatnið kemur á aftur.

Suðuræð 2 var lokað á miðnætti og þá hófst vinna …
Suðuræð 2 var lokað á miðnætti og þá hófst vinna við tæmingu á lögninni. Ljósmynd/Veitur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert